Innlent

Maður borinn út úr „hryllingshúsinu“

Jakob Bjarnar skrifar
Nú í morgun var verið að bera mann út úr íbúð sinni. Talið er að þar hafi hundahald ráðið ákvörðun en svara er beðið frá Félagsbústöðum.
Nú í morgun var verið að bera mann út úr íbúð sinni. Talið er að þar hafi hundahald ráðið ákvörðun en svara er beðið frá Félagsbústöðum. vísir/anton brink

Friður um Bríetartún 20, sem kallað hefur verið „hryllingshúsið“ vegna gripdeilda og ógnandi framgöngu konu sem búsett er í húsinu, virðist óhugsandi. Nú í morgun var maður borinn þaðan út.

Íbúi í húsinu sagði einu ástæðuna hugsanlega vera þá að maðurinn hafi einhvern tíma haldið tvo smáhunda sem voru líf hans og yndi.

„Þetta er friðsamur maður. En það er akkúrat núna verið að bera hann út. Úthýst. Sonur hans var ekki látinn vita af þessu en konan sem þið hafið verið að skrifa um, hún er hér enn í góðu yfirlæti,“ segir ónefndur íbúi hússins. Honum er um og ó.

Spurður hvort maðurinn skuldi leigu, hvort sú geti verið ástæðan segir íbúinn það ekki svo heldur hljóti þessi útburður að tengjast hundahaldinu.

„Hann hefur ekki verið með hunda hér í hálft ár. Þetta er viðbjóðsleg valdníðsla. Konan sem öllum óróanum veldur er hér hins vegar enn. Hún hefur verið að ræna manninn reglulega og meira að segja þessum hundum.“

Vísir setti sig í samband við Félagsbústaði, sem á stigaganginn allan en Félagsbústaðir sjá um að úthluta og halda utan um félagslegt húsnæði Reykjavíkurborgar. Þar liggja fyrir útistandandi skilaboð og verður fréttin uppfærð um leið og svör berast. Ljóst er að þar gengur mikið á.


Tengdar fréttir

„Enn sem er komið er staðan óbreytt og orð Sönnu ósönn“

Sigurbjörg Jónsdóttir, sem var borin út úr íbúð Félagsbústaða fyrr í vikunni, er ekki enn komin með annan samastað. Hún hefur síðustu nætur gist á hóteli sem vinkona hennar hefur greitt fyrir. Hún veit ekki hvað tekur við á morgun þegar hún þarf að fara þaðan.

Konan í Bríetartúni komin á götuna

Fulltrúar sýslumanns auk lögreglu báru fimmtuga konu úr leiguíbúð hennar við Bríetartún 20 nú fyrir hádegi. Hún er nú á götunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×