Íslenski boltinn

Þeir bestu (4. sæti): Sigur­vegarinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmaðurinn sem endaði í sæti 4.
Leikmaðurinn sem endaði í sæti 4. grafík/heiðar

Hér er farið yfir leikmanninn sem endaði í 4. sæti í valinu á bestu leikmönnum í efstu deild karla í fótbolta frá 1992.

4. Sigursteinn Gíslason

  • Lið: ÍA, KR
  • Staða: Bakvörður/miðjumaður
  • Fæðingarár: 1968
  • Íslandsmeistari: 1992, 1993, 1994, 1995, 1996, 1999, 2000, 2002, 2003
  • Bikarmeistari: 1993, 1996, 1999
  • Leikir: 232
  • Mörk: 13
  • Stoðsendingar: 21
  • Leikmaður ársins: 1994
  • Tvisvar sinnum í liði ársins

Sigursteinn Gíslason er mesti sigurvegari íslensks nútímafótbolta. Enginn hefur oftar orðið Íslandsmeistari (níu sinnum) og hann varð auki bikarmeistari í þrígang. Sigursteinn varð Íslandsmeistari með ÍA fimm ár í röð og fór svo í KR. Vesturbæjarliðið hafði ekki orðið Íslandsmeistari í 31 ár en vann titilinn fjórum sinnum á þeim fimm árum sem Sigursteinn var hjá því.

Sigursteinn Gíslason smellir kossi á Íslandsmeistarabikarinn eftir sigur ÍA á ÍBV í lokaumferðinni 1994.á sigurslóð

Sigursteinn var mjög fjölhæfur en kunni best við sig á miðjunni. En snemma tímabils 1993 var hann færður í stöðu vinstri bakvarðar, eitthvað sem honum leyst ekkert sérstaklega vel á til að byrja með. En það reyndist mikið gæfuspor fyrir hann.

Besta tímabil Sigursteins var 1994 en þá var hann valinn leikmaður ársins. Hann er eini bakvörðurinn sem hefur fengið þessa viðurkenningu síðan byrjað var að veita hana 1984. Ólafur Adolfsson minntist áhrifa Sigursteins á Íslandsmeistaratitil ÍA 1994 í Skaganum.

Það sem að mínu mati stendur upp úr þarna 1994 er frammistaða Sigursteins Gíslasonar heitins sem var algjörlega frábær. Þegar maður fer í gegnum leikina sem spiluðum og það var í raun ekkert að gerast tekur vinstri bakvörðurinn sig til, þrammar með boltann fram völlinn og það endar í marki. Þetta var regla frekar en undantekning. Það gerðist svo oft hjá ÍA þegar það urðu mannabreytingar steig einhver upp og þarna steig Sigursteinn Gíslason upp með afgerandi hætti og það má kannski segja að hann hafi verið þessi lykilþáttur sem tryggði það að við urðum Íslandsmeistarar.

ÍA varð Íslandsmeistari fjögur ár í röð (1992-95) eftir að hafa komið upp úr næstefstu deild en fékk mikla samkeppni um titilinn 1996. Sem frægt var réðust úrslit Íslandsmótsins í lokaumferðinni þar sem ÍA og KR áttust við á Akranesi. Guðjón Þórðarson gerði nokkrar tilfærslur á liði Skagamanna fyrir leikinn og ein sú mikilvægasta var að setja Sigurstein aftur á miðjuna við hlið Alexanders Högnasonar. Hann sýndi gamla takta, átti frábæran leik og lagði upp þriðja mark ÍA í 4-1 sigri.

Sigursteinn missti talsvert úr tímabilin 1997 og 1998 en gekk í raðir KR fyrir tímabilið 1999. KR hafði tapað úrslitaleik um titilinn 1996 og 1998 og ekki orðið Íslandsmeistari síðan 1968. En koma tveggja Skagamanna, Sigursteins og Bjarka Gunnlaugssonar, gerði gæfumuninn fyrir KR sem vann tvöfalt á aldarafmæli félagsins.

KR varð aftur Íslandsmeistari 2000, var næstum fallið 2001 en vann svo titilinn undir stjórn Willums Þórs Þórssonar 2002 og 2003. Eftir það fór Sigursteinn í Víking þar sem hann lauk ferlinum 2004.

Sigursteinn féll frá í ársbyrjun 2012, 43 ára, eftir baráttu við krabbamein. Eftirmælin um þennan mikla sigurvegara eru falleg en hann er ekki bara í goðsagnatölu hjá ÍA og KR heldur einnig hjá Leikni þar sem hann þjálfaði og var hársbreidd frá því að koma liðinu upp í efstu deild.

„Hann var bara sigurvegari númer eitt, tvö og þrjú. Það komst ekkert annað að,“ sagði markvörðurinn Kristján Finnbogason, fyrrverandi samherji Sigursteins hjá ÍA og KR, um hann í Goðsögnum efstu deildar. Það eru orð að sönnu.


Tengdar fréttir

Þeir bestu: Fylgt úr hlaði

Vísir gerðist stórhuga og ákvað að setja saman lista yfir sextíu bestu leikmenn efstu deildar karla frá 1992. Listinn yfir þessa sextíu leikmenn birtist á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×