Innlent

Kemur kjarnorkuvetur á eftir kjarnorkuákvæðinu?

Jón Þór Stefánsson skrifar
Ólafur Þ. Harðarson túlkar orð valkyrjanna á þann veg að þær hyggist knýja fram atkvæðagreiðslu haldi minnihlutinn áfram í málþófi.
Ólafur Þ. Harðarson túlkar orð valkyrjanna á þann veg að þær hyggist knýja fram atkvæðagreiðslu haldi minnihlutinn áfram í málþófi. Vísir/Vilhelm/Anton

„Þær nefndu ekki 71. greinina. En mér sýndist algjörlega augljóst að það sé í rauninni það sem þær eru að tala um,“ segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði, um ávarp Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra og málflutning ráðherranna Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og Ingu Sæland á Alþingi í morgun.

Kristrún ávarpaði þingið óvænt í morgun þar sem hún sagði framferði minnihlutans ekki eiga sér nein fordæmi, en hann hefur nú rætt veiðigjaldafrumvarp ríkisstjórnarinnar lengur en nokkuð annað mál. Inga og Þorgerður tóku síðan undir orð Kristrúnar.

Kornið sem virðist hafa fyllt mælinn, eða fengið Kristrúnu til þess að ávarpa þingið, var ákvörðun Hildar Sverrisdóttur, þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, að slíta þingfundi þegar hún sat í stól þingforseta í gærkvöldi

„Það virðist vera að Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti þingsins, hafi ætlað að láta þingfundinn halda lengra áfram fram í nóttina. Það er venjan þegar stjórnarandstaðan er með málþóf. Það sem gerist hins vegar er að Hildur, sem er varaforseti, ákveður, að því er virðist í engu samráði við forseta þingsins, að slíta fundinum. Það er greinilegt að stjórnarþingmennirnir telja þetta alvarlegt brot á reglum þingsins því það sé í rauninni bara forsetinn sem hafi vald til að slíta fundinum, varaforsetarnir hafi ekki það vald. Ég man nú satt að segja aldrei eftir svona uppákomu í þinginu.“

Ólafur hjó eftir því að Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í þinginu að Hildur hefði fylgt vinnureglum og handbók forseta. Sjálfur segist hann ekki geta sagt til um hvað sé rétt í þeim málum, hvað falli innan og utan valdsviðs forseta og varaforseta.

„En þetta hefur hleypt illu blóði í þingmenn og aukinni hörku í málið.“

Muni beita ákvæðinu hætti málþófið ekki

Ólafur skilur orð Kristrúnar, Þorgerðar og Ingu á þann veg að ríkisstjórnin hyggist beita hinni umtöluðu 71. grein þingskapalaga til þess að stöðva eða afmarka ræður minnihlutans um málið og koma því í atkvæðagreiðslu.

„Ég skil þetta ávarp Kristrúnar þannig, og líka það sem Þorgerður Katrín og Inga Sæland sögðu svo í framhaldinu þar sem þær tóku undir með Kristrúnu og hnykktu á, að ef stjórnarandstaðan heldur áfram málþófinu verði 71. grein þingskaparlaganna beitt til þess að ljúka umræðunni og koma málinu til atkvæða.“

Hann bætir við að þeirri grein sé hægt að beita með mismunandi hætti. Bæði sé hægt að stöðva umræður samstundis, eða gefa stjórnarandstöðunni tiltekinn tíma til að ræða málið, en að honum liðnum sé gengið til atkvæða.

„Mér sýnist allt stefna í það að ef stjórnarandstaðan heldur áfram þá muni meirihlutinn ákveða að ljúka umræðunni með einhverjum hætti.“

Minnihlutinn með neitunarvald ef fram heldur sem horfir

Að sögn Ólafs virðist krafa minnihlutans vera sú að veiðigjaldafrumvarpið verði tekið af dagskrá og nýtt og breytt frumvarp verði lagt fram á nýju þingi. Yfirlýsingar ráðherranna þriggja séu á þá leið að frumvarpið verði tekið til atkvæða á þessu þingi.

Hann metur stöðuna þannig að ef meirihlutinn ákveði ekki að beita ákvæðinu sé hann um leið að samþykkja að minnihlutinn hafi algjört neitunarvald á þinginu.

„Staðan er þannig að ef 71. greininni er ekki beitt, og henni hefur ekki verið beitt síðan 1959, þá má segja að stjórnarandstaðan hafi algjört neitunarvald. Þetta er stjórnskipunarlegt atriði. Ef að það er gengið út frá því að það megi ekki beita 71. greininni þá gera þingsköpin, eftir að þeim var breytt 2007, það tæknilega mögulegt fyrir stjórnarandstöðuna að halda málþófinu áfram endalaust. Ef meirihlutinn fellst á þá túlkun, að það sé allt í lagi, þá þýðir það í rauninni að stjórnarmeirihlutinn sé búinn að fallast á það að minnihluti þingsins hafi algjört synjunarvald gagnvart lagasetningu sem meirihlutinn vill koma í gegn. Það er ekki synjunarvald eins og forsetinn er með, sem getur skotið málum til þjóðarinnar, heldur er fallist á það að með málþófi geti minnihlutinn synjað því að meirihlutaviljinn á þingi nái fram að ganga um löggjöf,“ segir Ólafur.

„Það að fallast á þetta er auðvitað mjög alvarlegur hlutur. Eina ráðið er, ef stjórnarandstaðan heldur þessu til streitu, er að beita 71. greininni ef hún vill koma málinu í gegn á þessu þingi. Þetta snýst í rauninni um grundvallarprinsipp lýðræðisins. Það er bara þannig.“

Kæmi kjarnorkuvetur?

Einhverjir hafa varað við því að þessari grein verði beitt. Líkt og áður segir hefur hún ekki litið dagsins ljós síðan árið 1959. Í þeirri umræðu hefur verið rætt um greinina sem „kjarnorkuákvæði“.

„Stjórnarandstaðan og sumir hafa talað um 71. greinina sem kjarnorkuákvæði, sem þýðir þá væntanlega að í kjölfar þess sem kjarnorkuákvæðinu er beitt kæmi einhverskonar kjarnorkuvetur í íslenskri pólitík. Það eru í rauninni hótanir um að ef ákvæðinu er beitt þá myndi stjórnarandstaðan sýna algjöra grimmd í því að lama allt starf Alþingis,“ segir Ólafur.

„Það væri því mjög fróðlegt að sjá ef atkvæðinu er beitt hvort stjórnarandstaðan myndi gera alvöru úr þeirri hótun að stuðla að fullkominni upplausn á þinginu í hefndarskyni í framhaldinu.“

Ólafur líkir 71. greininni við málskotsrétt forseta. Talað hafði verið um hann sem dauðan bókstaf í lögum landsins áður en honum var beitt. Svipuð staða sé uppi nú þar sem umræddri grein hefur ekki verið beitt í marga áratugi.

„Þegar Vigdís hugleiddi að synja EES-frumvarpinu staðfestingar 1992 til 1993, þá var henni sagt tæpitungulaust að ef hún beitti þessari grein þá myndi þing verða rofið, ríkisstjórnin segja af sér, og fullkomin pólitísk upplausn í landinu. Stjórnarherrarnir þá, bæði Davíð Oddsson og Jón Baldvin Hannibalsson, höfðu gert henni það algjörlega ljóst. Vigdís reyndi hins vegar ekki á það og beitti synjunarvaldinu í það skipti. Hins vegar þegar Ólafur Ragnar beitti synjunarvaldinu 2004, hvað gerðist þá? Varð svona pólitísk upplausn eins og hótað hafði verið? Nei, það gerðist bara nákvæmlega ekki neitt, annað en það að ríkisstjórnin, stjórn Davíðs Oddssonar, ákvað að setja málið ekki í þjóðaratkvæði. Enda var ljóst að hún myndi tapa slíkri atkvæðagreiðslu. Heldur kaus stjórnin að draga frumvarpið til baka,“ segir Ólafur.

„Þannig þó að menn spái kjarnorkuvetri þá verður hann ekki alltaf. Þess vegna verður framhaldið mjög forvitnilegt ef greininni verður beitt fyrir áhugamenn um stjórnmál.“


Tengdar fréttir

„Forsætisráðherra veit ekkert hvernig þetta hefur verið!“

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir áhugavert að hlusta á forsætisráðherra, sem hann segir búinn að koma Alþingi „fullkomlega í skurðinn,“ útskýra fyrir þinginu hvernig þetta hefur verið. „Forsætisráðherra veit ekkert hvernig þetta hefur verið,“ sagði Guðlaugur ákveðinn.

Þykir leitt að hafa valdið uppnámi

„Mér þykir innilega leiðinlegt að fundarstjórn mín sem varaforseti í gærkvöldi sé túlkuð sem tilraun til valdaráns eða hvað það er sem ég heyri víða þennan morguninn. Í stuttu máli var það að sjálfsögðu alls ekki ætlun mín,“ segir Hildur Sverrisdóttir. Ákvörðun hennar um að slíta þingfundi klukkan 23:39 í gærkvöldi olli miklu fjaðrafoki á þingi í morgun.

Sauð upp úr þegar Bryndís sagði Hildi fylgja vinnureglum

Allt ætlaði um koll að keyra þegar Bryndís Haraldsdóttir sagði að ákvörðun Hildar Sverrisdóttur að slíta þingfundi í gær, væri í samræmi við vinnureglur og handbók forseta. Hróp og köll heyrðust úr þingsal, „Jesús“ sögðu sumir og „hvaða kjaftæði“ sagði einhver hátt og snjallt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×