Körfubolti

„Getum ekki beðið eftir að sjá þig gera krafta­verk“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marjorie Carpreaux fagnar með belgíska landsliðinu þegar liðið vann bronsverðlaun á Eurobasket 2021.
Marjorie Carpreaux fagnar með belgíska landsliðinu þegar liðið vann bronsverðlaun á Eurobasket 2021. Getty/Ivan Terron

Keflavíkurkonur hafa tryggt sér mikinn liðstyrk fyrir átökin í Bónus deild kvenna í körfubolta á næstu leiktíð. Reynslumikill Belgi mun stjórna umferðinni á Sunnubrautinni næsta vetur.

Keflavíkurkonur ollu miklum vonbrigðum á síðustu leiktíð með sinn stjörnuprýdda hóp en nú mætar þær reynslunni ríkari til leiks og búnar að fylla í vandamálastöðuna á síðustu leiktíð.

Keflavík hefur nefnilega gengið frá samningi við belgíska leikstjórnandann Marjorie Carpréaux. Hún er einn af fremstu leikmönnum Belgíu síðustu árin og kemur með mikla alþjóðlega reynslu í farteskinu.

Carpréaux verður 38 ára í haust og er 160 sentímetrar á hæð en hún hefur spilað yfir 150 leiki fyrir belgíska landsliðið.

Carpréaux náði því meðal annars að vinna tvívegis bronsverðlaun með Belgum á Evrópumótinu en það var bæði á EuroBasket 2017 og EuroBasket 2021.

Carpréaux spilaði einnig með Belgum á Ólympíuleikunum í Tókýó 2021.

Hún hefur leikið í efstu deildum í Belgíu, Frakklandi, Ítalíu, Svíþjóð, Sviss og Póllandi

„Hún er sigursæl, með mikinn keppnisanda og er nákvæmlega sú týpa af leikmanni sem eflir liðið – bæði innan vallar og utan,“ sagði Hörður Axel Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkurliðsins á miðlum félagsins.

Keflvíkinga búast líka við miklu af Carpréaux eins og sjá má á lokaorðunum í fréttinni:

„Gerið ykkur klár fyrir töfrandi dribbl, glæsilegar stoðsendingar og ósvikna EuroBasket-bronsgæði í leikmanninum með treyju númer 9. Velkomin til Íslands, Marjorie! Við getum ekki beðið eftir að sjá þig gera kraftaverk á vellinum í Keflavík.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×