Fótbolti

Davíð Snorri að­stoðar Frey og fé­laga

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Freyr og Davíð Snorri hafa brallað margt í gegnum árin.
Freyr og Davíð Snorri hafa brallað margt í gegnum árin. Vísir

Góðvinirnir Davíð Snorri Jónasson, aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, og Freyr Alexandersson, þjálfari Brann í efstu deild Noregs, munu starfa saman á nýjan leik.

Davíð Snorri og Freyr koma báðir úr Breiðholti og þjálfuðu Leikni Reykjavík saman fyrir meira en áratug. Komu þeir Leikni upp í efstu deild áður en þeir héldu í sitthvoru áttina. Þeir hafa þó starfað saman hjá Knattspyrnusambandi Íslandi og munu vinirnir nú starfa saman á nýjan leik.

Staðarmiðillinn Bergens Tidende greinir frá því að Davíð Snorri hafi hjálpað Frey að leikgreina lið Red Bull Salzburg. Eggert Aron Guðmundsson, Sævar Atli Magnússon og aðrir lærisveinar Freys mæta austurríska liðinu í undankeppni Meistaradeildar Evrópu. Fyrri leikur liðanna fer fram á morgun, miðvikudag, og sá síðari í næstu viku.

Freyr er á sínu fyrsta tímabili með Brann. Eftir 2-0 tap á útivelli gegn KFUM Ósló í síðustu umferð er liðið með 30 stig í 3. sæti, sex minna en topplið Viking sem hefur leikið einum leik meira.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×