Innlent

Enn gýs úr einum megingíg og virknin nokkuð stöðug

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Aðeins einn gígur er virkur eins og er.
Aðeins einn gígur er virkur eins og er. Veðurstofa Íslands

Gosvirkni á Sundhnúksgígaröðinni hefur haldist nokkuð stöðug í nótt en strókavirkni verið aðeins meiri seinni hluta nætur. Gat sem myndaðist á gíg síðustu nótt hefur lokast og enn gýs úr einum megingíg.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofunni. Þar segir að á miðnætti hafi rofað til á Reykjanesi þannig að aftur sást til gossins.

Veðurstofa vill ítreka hættuna af því að ganga á nýlegu hrauni, þar sem einungis nokkrir sentímetrar geta skilið á milli harðs hraunyfirborðs og fljótandi hrauns.

Suðlæg átt mun ríkja á gosstöðvunum í dag og því má gera ráð fyrir að gas frá eldgosinu berist yfir Voga og inn á Faxaflóa. Ekki hefur mælst mikil gasmengun í byggð í nótt en gosmóða mældist víða á Suðurlandi í gærkvöldi.

Fylgjast má með stöðu mála á loftgæði.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×