Innlent

Komu ferða­mönnum í sjálfsheldu á Bú­lands­tindi til að­stoðar

Kjartan Kjartansson skrifar
Hópur björgunarsveitarfólks frá Báru á Djúpavogi sem tók þátt í aðgerðinni á Búlandstindi í gær.
Hópur björgunarsveitarfólks frá Báru á Djúpavogi sem tók þátt í aðgerðinni á Búlandstindi í gær. Landsbjörg

Björgunarsveitarfólk af Austurlandi aðstoðuðu ferðamenn sem lentu í sjálfheldu á Búlandstindi til aðstoðar í gærkvöldi. Töluverður viðbúnaður var í fyrstu þegar þörf var talin á sérhæfðu fjallabjörgunarfólki en ekki reyndist þörf á því á endanum.

Ferðamennirnir óskuðu eftir aðstoð neyðarlínu í gærkvöldi en þeir lögðu af stað í göngu á Búlandstind ofan Djúpavogs snemma í gærmorgun. Þeir voru enn á fjallinu klukkan átta í gærkvöldi þrátt fyrir að þeir hefðu ætlað sér að verða komnir niður um miðjan dag. Töldu þeir sig ekki komast lengra, að því er segir í tilkynningu frá Landsbjörg.

Í fyrstu var björgunarsveitin Bára á Djúpavogi kölluð út en í kjölfarið sveitir af öllu Austurlandi þegar útlit var fyrir að þörf væri á sérhæfðu fjallabjörgunarfólki. 

Dróni var settur á loft til þess að staðsetja göngufólkið sem fannst fljótlega. Þá varð ljóst að ekki væri þörf á fjallabjörgunarfólki og aðrar sveitir en Bára afboðaðar. Sex manna sveit Bárufólks hélt áfram að fólkinu og fylgdi því niður fjallið.

Hlúð var að einum ferðamannanna á heilsugæslunni á Djúpavogi en hann hafði fallið lítillega. Aðgerðum var lokið um klukkan hálf tólf í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×