Enski boltinn

Rooney sár út í Tom Brady: „Fannst hann vera mjög ó­sann­gjarn“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney fékk ekki langan tíma hjá Birmingham enda var árangurinn enginn undir hans stjórn.
Wayne Rooney fékk ekki langan tíma hjá Birmingham enda var árangurinn enginn undir hans stjórn. EPA/ADAM VAUGHAN

Wayne Rooney hefur tjáð sig um ummæli Tom Brady í heimildaþáttunum um Íslendingafélagið Birmingham City.

NFL goðsögnin kom inn í eigandahóp Birmingham og var fljótur að missa trú á Rooney sem þá var knattspyrnustjóri Birmingham. Rooney var síðan rekinn eftir aðeins 83 daga í starfi.

Brady kom í heimsókn til Birmingham í nóvember 2023 og myndavélarnar voru á honum þegar hann mætti á æfingasvæðið og fylgdist með liðsfundi Rooney.

Brady efaðist í framhaldinu um vinnusemi Rooney og taldi hann ekki leggja nógu mikið á sig í starfinu.

„Ég held að Tom hafi komið einu sinni til að fylgjast með og það var degi fyrir leik þegar minna er í gangi. Ég held að hann skilji ekki okkar fótbolta nógu vel,“ sagði Wayne Rooney í nýja þætti sínum The Wayne Rooney Show. Breska ríkisútvarpið segir frá.

„Hann þekkir hins vegar vinnusemi og að leggja mikið á sig. Við vitum það,“ sagði Rooney.

„Fótbolti er ekki NFL. NFL fólk er í vinnunni í þrjá mánuði á ári. Leikmenn þurfa að hvíla sig fyrir leik og mér fannst hann vera mjög ósanngjarn. Svona hvernig hann kom fram og orðaði þetta,“ sagði Rooney.

Rooney segir að allt hafi verið í tómu rugli hjá félaginu þegar hann tók við.

„Þarna voru leikmenn sem gátu ekki tekið félagið upp á næsta stig. Menn eins og Tony Mowbray og Gary Rowett komu á eftir mér og þeir voru líka í vandræðum,“ sagði Rooney.

„Ekki misskilja mig. Ég ber mikla virðingu fyrir Tom Bady. Hann er einn af þeim allra bestu íþróttamönnum sögunnar ef ekki sá besti. Það lítur út fyrir að Birmingham sé núna að takst að komast á réttan stað sem er gott. Þeir náðu að mínu mati í leikmenn sem þeir þurftu til að komast upp,“ sagði Rooney.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×