Erlent

Mætti í sovét­bol til fundarins í Alaska

Kjartan Kjartansson skrifar
Myndband sem sýnir Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, (t.v.) í CCCP-bol í Anchorage í Alaska.
Myndband sem sýnir Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, (t.v.) í CCCP-bol í Anchorage í Alaska. Skjáskot

Utanríkisráðherra Rússlands mætti til fundarins með Bandaríkjaforseta í Alaska í dag klæddur í bol með skammstöfun Sovétríkjanna sálugu. Á fundinum á að ræða um stríðsrekstur Rússa í Úkraínu sem var eitt sinn hluti af Sovétríkjunum.

Sendinefnd þungaviktarmanna innan rússneska stjórnkerfisins fylgir Vladímír Pútín á fund hans með Donald Trump Bandaríkjaforseta í Anchorage í Alaska í dag, þar á meðal Sergei Lavrov, utanríkisráðherra.

Athygli vakti að þegar Lavrov mætti til Alaska var hann klæddur í hvítan bol sem á virtist standa „CCCP“, skammstöfun Sovétríkjanna á rússnesku. að því er kemur fram í frétt Politico. Skammstöfunin stóð fyrir Sambandsríki sósíalískra sovétlýðvelda en Úkraína var eitt þeirra lýðvelda þar til hún lýsti yfir sjálfstæði við fall Sovétríkjanna árið 1991.

Pútín hefur lýst upplausn Sovétríkjanna sem mestu pólitísku hörmungum 20. aldarinnar. Sérfræðingar telja að innrás hans í Úkraínu og innlimun á úkraínskum landsvæðum sé hluti af viðleitni rússneska forsetans til þess að endurvekja rússneska heimsveldið. Forsetinn starfaði áður fyrir sovésku leyniþjónustuna alræmdu, KGB.

Trump hefur sagst telja fjórðungslíkur á því að fundur þeirra Pútíns fari út um þúfur. Lavrov vildi ekki velta vöngum um það þegar hann var spurður við komuna til Anchorage.

„Við reynum aldrei að spá fyrir um niðurstöðu eða giska. Það sem við vitum hins vegar er að við höfum rök fram að færa sem geta stulðað að umræðum og að afstaða okkar er skýr. Í raun hefur mikill árangur náðst nú þegar,“ sagði hann.


Tengdar fréttir

Segir 75 prósent líkur á árangursríkum fundi í kvöld

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagðist í gær telja að Vladimir Pútín Rússlandsforseti vildi komast að samkomulagi um frið í Úkraínu og að hann teldi 75 prósent líkur á því að fundur þeirra í Alaska í kvöld myndi bera árangur.

Borgarstjóri Anchorage segir allt til reiðu fyrir leiðtogafund

Augu umheimsins beinast nú að borginni Anchorage í Alaska þar sem fundur Trump og Pútín fer fram á morgun í Elmendorf-Richardson-herstöðinni . Borgarstjóri Anchorage segir allt til reiðu og íbúa stolta af þeirri athygli sem borgin nýtur nú í heimspressunni.

Kýr­skýrt að aðeins Selenskíj geti samið um landsvæði

Forseti Frakklands segir það hafa verið gert kýrskýrt að aðeins Volodýmýr Selenskíj, forseti Úkraínu, hafi umboð til að ræða möguleg skipti á landsvæði við Rússa á fundi með Bandaríkjaforseta. Selenskíj sagðist jákvæður að fundi loknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×