Íslenski boltinn

Bræðraslagur í bikar­úr­slita­leiknum í ár: „Er alltaf að reyna að ögra mér“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dönsku bræðurnir Patrick og Jeppe Pedersen mætast með liðum sínum, Val og Vestra, í úrslitaleik Mjólkurbikar karla í fótbolta á föstudagskvöldð.
Dönsku bræðurnir Patrick og Jeppe Pedersen mætast með liðum sínum, Val og Vestra, í úrslitaleik Mjólkurbikar karla í fótbolta á föstudagskvöldð. @mjolkurbikarinn

Bikarúrslitaleikur karla fer fram á föstudagskvöldið á Laugardalsvellinum en þarna eru ekki bara Valur og Vestri að mætast heldur einnig dönsku bræðurnir Patrick og Jeppe Pedersen.

Það munar tíu árum á bræðrunum, Patrick er 34 ára og Jeppe er 24 ára. Patrick hefur verið hér á landi meira eða minna síðan árið 2013 eða síðan að Jeppe var aðeins tólf ára gamall.

Miðlar Mjólkurbikarsins hita upp fyrir leikinn með léttu viðtali við bræðurna.

„Þetta er sérstakt augnablik fyrir mig og bróður minn,“ sagði Patrick Pedersen.

„Við vitum þegar að það verður einn bikar í fjölskyldunni. Þetta er samt ekki eitthvað sem þú ert að hugsa um þegar þú ert inn á vellinum,“ sagði Jeppe.

„Hann er alltaf að reyna að ögra mér og reyna að komast inn í hausinn minn,“ sagði Patrick og yngri bróðir hans hefur trú á því að liðsfélagarnir í Vestra stöðvi markahæsta leikmann Bestu deildarinnar.

„Ég held að við séum með leikmenn sem vita hvernig eigi að taka hann úr umferð og svo þurfum við að gera það af alvöru,“ sagði Jeppe.

„Það mun ekki hafa áhrif á minn leik,“ sagði Patrick brosandi.

Patrick Pedersen hefur skorað átján mörk í Bestu deildinni og 134 mörk samanlagt í efstu deild. Hann hefur líka skorað þrjú mörk í Mjólkurbikarnum í sumar og átján bikarmörk samanlagt.

Jeppe Pedersen hefur skorað eitt mark fyrir Vestra í Bestu deildinni í sumar og er bara 132 mörkum á eftir bróður sínum samanlagt. Jeppe á enn eftir að skora bikarmark á Íslandi.

Þeir hafa mæst tvisvar í Bestu deildinni í sumar og skoraði Patrick í báðum leikjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×