Innlent

Leiguverðshækkanir hafa étið upp hækkun húsnæðisbóta

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Húsnæðisbætur styðja við þúsundir heimila um allt land.
Húsnæðisbætur styðja við þúsundir heimila um allt land.

Leiguverðshækkanir hafa leitt til þess að hlutfall húsnæðisbóta af leigu er komið ansi nálægt því sem það var áður en grunnfjárhæðir húsnæðisbóta voru hækkaðar um fjórðung í fyrra.

Þetta segir í mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Umræddar lagabreytingar fólu einnig í sér hækkun skerðingarmarka vegna eigna, auk þess sem bæturnar tóku til fleiri heimilismanna. 

Samkvæmt skýrslu HMS hefur meðalleigufjárhæð alla heimila sem þiggja húsnæðisbætur, óháð heimilisstærð, hins vegar hækkað um rúmar 20 þúsund krónur á milli júlímánaða 2024 og 2025 og hlutfall húsnæðisbóta af leigu lækkað úr 28,3 prósentum í 25,1 prósent.

„Vegna leiguverðshækkana er hlutfall húsnæðisbóta af leigu komið ansi nálægt því sem það var áður en lagabreytingin átti sér stað en hlutfallið var 25,7% í júlí 2023,“ segir í skýrslunni.

Um það bil 16.500 manns fengu húsnæðisbætur í júlí, þar af um 9.000 einstaklingar sem búa einir. Húsnæðisbótaþegar voru 300 fleiri í júlí síðastliðnum en júlí 2024, þar af voru 150 sem hefðu ekki fengið umsókn sína samþykkta nema vegna áðurnefndrar lagabreytingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×