Erlent

Frakkar skila höfuð­kúpu konungsins Toera

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Höfuðkúpurnar þrjár voru afhentar við athöfn í menningarmálaráðuneytinu í París.
Höfuðkúpurnar þrjár voru afhentar við athöfn í menningarmálaráðuneytinu í París. Skjáskot

Stjórnvöld í Frakklandi hafa skilað hauskúpu konungsins Toera til Madagaskar. Toera var myrtur og afhöfðaður af frönskum hermönnum árið 1897.

Herinn var sendur til að taka yfir Menabé konungdæmi Sakalava þjóðarinnar í vesturhluta Madagaskar og slátraði hersveitum konungsins. Höfuð konungsins var í framhaldinu sent til Parísar og varðveitt í geymslum Náttúruminjasafnsins.

Afkomendur Toera og stjórnvöld á Madagaskar hafa barist fyrir endurheimt höfuðkúpunnar en það vekur nokkra athygli að niðurstöður erfðarannsókna hafa verið óljósar og þannig ekki 100 prósent öryggt að um sé að ræða höfuðkúpu konungsins.

Það var hins vegar látið duga að Sakalava-andamiðill staðfesti að höfuðkúpan væri Toera.

Höfuðkúpa konungsins er hins vegar ekki sú eina sem hefur verið skilað, heldur voru tvær til viðbótar afhentar, sem talið er að hafi tilheyrt hirðmönnum Toera.

AFP hefur eftir Rachidu Dadi, menningarmálaráðherra Frakklands, að Náttúruminjasafnið hafi augljóslega komist yfir höfuðkúpurnar eftir valdbeitingu nýlendustjórnarinnar og án tillits til mannlegrar reisnar.

Þá er haft eftir Volamiranty Donna Mara, menningarmálaráðherra Madagaskar, að varðveisla höfuðkúpanna í Frakklandi hafi verð „opið sár í hjarta eyjunnar“ í meira en öld.

Frakkar hafa sett ný lög sem auðvelda ríkjum að endurheimta menningarminjar í vörslu Frakka. Talið er að í geymslum Náttúruminjasafnsins í París sé að finna yfir 20.000 líkamsleifar einstaklinga hvaðanæva að úr heiminum, sem voru fluttar til Frakklands „í vísindaskyni“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×