Innlent

Ár­borg girnist svæði Flóahrepps

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Horft frá Selfossi, sem er í Sveitarfélaginu Árborg, yfir í Flóahrepp.
Horft frá Selfossi, sem er í Sveitarfélaginu Árborg, yfir í Flóahrepp. Vísir/Vilhelm

Bæjarráð Árborgar hefur óskað eftir samræðum við Flóahrepp um mögulega tilfærslu sveitarfélagamarkanna og til að ræða mögulega ávinninga við sameiningu sveitarfélaganna tveggja. Mörkin milli sveitarfélaganna liggja alveg við Selfoss svo að golfvöllur Golfklúbbs Selfoss er í öðru sveitarfélagi en bærinn sem hann er kenndur við.

Á fundi bæjarráðs Árborgar þann 4. september var samþykkt samhljóða að senda erindi á sveitarstjórn Flóahrepps varðandi ósk þeirra um að mögulega færa sveitarfélagamörkin. Með samtalinu eigi að vega og meta ávinninga þess að sameina sveitarfélögin tvö.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Árborg. Mörk Árborgar og Flóahrepps liggja við bæjarmörk Selfoss, sem er í Árborg. Þá sé til dæmis golfvöllur Golfklúbbs Selfoss í Flóahreppi, ekki Árborg. Umrætt landsvæði liggur í beinu framhaldi af núverandi sveitarfélagamörkum og Sveitarfélagið Árborg keypti árið 2014.

Í erindi sveitarstjórnar Árborgar segjast þau einnig tilbúin að skoða mögulega ávinninga þess að sameina sveitarfélögin tvö. 

Í fundargerð bæjarins segir að nú þegar hafi óformlegir fundir milli fulltrúa sveitarfélaganna átt sér stað um mögulega færslu sveitarfélagamarkanna. Land, sem sú nú þegar í eigu Árborgar, yrði þá innan sveitarfélagamarka Árborgar.

„Mikil tækifæri eru til uppbyggingar í báðum sveitarfélögunum til framtíðar. Selfoss hefur þróast í að vera sameiginlegt þjónustusvæði íbúa sveitarfélaganna þegar horft er til almennrar þjónustu, hluta íþrótta- og frístundastarfs, velferðarþjónustu og fleiri þátta sem sveitarfélögin eru meðal annars með í samstarfssamningum,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×