Tónlist

Árný Margrét ómaði á tískupöllum í New York

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Lag tónlistarkonunnar Árnýjar Margrétar ómaði á tískusýningu hjá Ralph Lauren í gær.
Lag tónlistarkonunnar Árnýjar Margrétar ómaði á tískusýningu hjá Ralph Lauren í gær. Instagram

„Mér fannst ótrúlega óraunverulegt að sjá myndband af Opruh Winfrey með mínu lagi undir,“ segir tónlistarkonan Árný Margrét en splunkunýtt lag úr hennar smiðju ómaði á tískupöllum í gær á tískuvikunni í New York. 

Árný Margrét er fædd árið 2001 og alin upp á Ísafirði. Hún hefur komið fram víða um heim, unnið til verðlauna hérlendis og tónlist hennar vakið athygli. 

Í mars síðastliðnum gaf hún út lagið I Miss You, I Do og er þar að finna lagið umrædda Day Old Thoughts.

„Ég fékk skilaboð frá umboðsmanninum mínum um það að fá lagið mitt í svokallað runway Show hjá tískurisanum Ralph Lauren. 

Ég hugsaði í raun ekkert þannig um þetta, hélt að þetta væri bara eitthvað lítið streymi í beinni og tók þessu ekkert svo alvarlega. Ég sagði auðvitað bara já,“ segir Árný Margrét um það hvernig þetta kom til. 

Hér má sjá myndbönd af tískupallinum með lagi Árnýjar Margrétar sem tískutímaritið Elle deildi meðal annars: 

„Í gærkvöldi sendi svo umboðsmaðurinn minn linkinn af þessu og þá gerði ég mér svolítið grein fyrir því hvað þetta er stórt þar sem þekktir leikarar og tónlistarmenn voru viðstaddir viðburðinn. 

Þetta var í raun tískusýning fyrir nýju vorlínu Ralph Lauren fyrir árið 2026. Það voru bara þrjú lög notuð í sýninguna og eitt þeirra var mitt, sem er mikill heiður,“ bætir Árný Margrét við í skýjunum. Hún segir þetta að sama skapi smá súrrealískt.

Tónlistarkonan Árný Margrét hefur komið fram á tónlistarhátíðum víða um heim. Anna Maggý

„Ég trúi því varla að Ralph Lauren og fleiri þekkt tískurit séu að deila vídeóum með mínu lagi. Mér fannst allavega ótrúlega óraunverulegt að sjá myndband af Opruh Winfrey með mínu lagi undir. Þetta er bara mjög skemmtilegt og ég er bara ótrúlega glöð og þakklát fyrir þetta tækifæri,“ segir þessi efnilega tónlistarkona að lokum.

Hér má sjá tískusýninguna í heild sinni og hér er hægt að hlusta á Árnýju Margréti á streymisveitunni Spotify






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.