Veður

Kólnar þegar líður á vikuna

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti á landinu verður fimm til fjórtán stig, mildast á Suðvesturlandi.
Hiti á landinu verður fimm til fjórtán stig, mildast á Suðvesturlandi. Vísir/Vilhelm

Hæð yfir Grænlandi stýrir veðrinu á landinu næstu daga og verða norðaustlægar áttir ríkjandi með stöku skúrum norðan- og austanlands, en léttir til suðvestantil.

Á vef Veðurstofunnar segir að þegar líði á vikuna kólni smám saman og þá komi él eða slydduél einnig við sögu fyrir norðan.

„Í dag verður norðaustlæg átt 3-10 m/s og dálitlar skúrir á víð og dreif, en 8-15 m/s á norðvestanverðu landinu. Lengst af þurrt suðvestantil framan af degi, en stöku skúrir þar líka síðdegis.

Hiti 5 til 14 stig, mildast á Suðvesturlandi,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Norðaustan 8-15 m/s og dálitlar skúrir eða él, en bjart að mestu á Suður- og Vesturlandi. Hiti 3 til 11 stig, mildast syðst.

Á fimmtudag og föstudag: Norðlæg átt 5-13, hvassast við austurströndina. Bjart með köflum sunnan heiða, en skýjað og dálítlar skúrir eða él norðan- og austanlands. Hiti 1 til 8 stig yfir daginn, en útlit fyrir næturfrost í flestum landshlutum.

Á laugardag: Norðvestlæg eða breytileg átt, skýjað og lítilsháttar væta, en bjart að mestu suðaustantil. Áfram svalt.

Á sunnudag: Suðvestanátt og skýjað, en lengst af þurrt, en sums staðar dálítil væta norðantil. Hiti 5 til 10 stig.

Á mánudag (haustjafndægur): Útlit fyrir suðvestlæga átt. Lítilsháttar rigning á vestanverðu landinu en bjartviðri eystra. Hiti 8 ti 14 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×