Innlent

Helmingur nýrra í­búða ó­seldur í yfir 200 daga

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hrein ný íbúðalán til heimila námu alls 25,2 milljörðum króna í júlí og hafa ekki verið hærri frá því í júlí 2021.
Hrein ný íbúðalán til heimila námu alls 25,2 milljörðum króna í júlí og hafa ekki verið hærri frá því í júlí 2021. Vísir/Vilhelm

Um það bil 5.000 íbúðir voru á sölu í upphafi septembermánaðar en um er að ræða tvöföldun frá upphafi árs 2023. Þar af voru nýjar íbúðir um 2.000 en um helmingur þeirra hafði verið óseldur í meira en 200 daga.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýjustu mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Þar segir einnig að á fasteignamarkaði hafi meira verið keypt af notuðum íbúðum í júlí heldur en á fyrri árum, á meðan nýjar íbúðir seldust verr. „Fasteignaverð hefur lækkað að raunvirði á síðustu tólf mánuðum, en mikið framboð íbúða á sölu heldur aftur af verðhækkunum,“ segir í samantekt HMS um skýrsluna.

Þinglýstir kaupsamningar voru 1.047 í júlímánuði, álíka margir og í júní og maí. Veltan á fasteignamarkaði nam um 81 milljarði og meðalvelta á kaupsamning var um 80 milljónir króna.

HMS fjallar einnig um árlega könnun um ástand brunavarna, þar sem í ljós kom að reykskynjarar eru til staðar á 96,5 prósent heimila, en þar af hafa um 60 prósent heimila fjóra eða fleiri. Þá eru slökkvitæki til staðar á um 80 prósent heimila og eldvarnateppi á 67,7 prósent heimila.

Þá voru leigjendur spurðir um brunavarnir í fyrsta sinn en sú könnun leiddi í ljós að reykskynjarar voru til staðar á um 92 prósent heimila og slökkvitæki á um 80 prósent heimila. Flóttaleiðum var hins vegar ábótavant en innan við helmingur leigjenda reyndist búa í húsnæði þar sem neyðarútgangar voru „auðrataðir og greiðfærir“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×