Innlent

Skýr af­staða lands­manna um hvort ein­kunnir eigi að vera í tölum eða bók­stöfum

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Meirihlutinn hefur talað. Langflestir eru hrifnari af því að einkunnir séu birtar í tölustöfum en bókstöfum samkvæmt nýrri könnun.
Meirihlutinn hefur talað. Langflestir eru hrifnari af því að einkunnir séu birtar í tölustöfum en bókstöfum samkvæmt nýrri könnun. Getty

Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna er hlynntur einkunnagjöf í tölustöfum frekar en með bókstöfum samkvæmt nýrri könnun. Innan við þrír af hverjum hundrað eru hrifnir af því að einkunnir í íslenskum skólum séu birtar í bókstöfum. Nemendur sem hafa kynnst hvoru tveggja telja sumir að bókstafirnir séu betri á meðan öðrum þykja tölustafir nákvæmari og sanngjarnari.

Ríflega 88% svarenda finnst að einkunnir í íslenskum skólum eigi að vera birtar í tölustöfum. Innan við tíu prósentum finnst það ekki skipta máli og aðeins 2,6 prósent segjast vilja hafa einkunnir í bókstöfum.

Lítill munur er á svörum eftir aldri, þar sem yfirgnæfandi meirihluti í öllum aldurshópum er hrifnari af tölustöfum en bókstöfum, flestir þó á aldrinum 18 til 29 ára og fæstum á aldrinum 40 til 49 ára.

Fjöldatölur eru við hvern hóp. Aðeins er greint eftir bakgrunni fyrir þá hópa þar sem 5 eða fleiri svöruðu spurningunni.Maskína

Ekki var mikill munur á svörum eftir öðrum breytum heldur. Myndin hér að neðan sýnir hvernig svör dreifðust eftir kyni, aldri, búsetu, menntun, heimilistekjum og afstöðu til stjórnmálaflokka. Íbúar á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi, sem og kjósendur Pírata, Samfylkingar og Vinstri grænna voru þó öllu líklegri til að telja það ekki skipta máli hvort einkunnir séu í tölu- eða bókstöfum, en yfirgnæfandi meirihluti í öllum hópum kveðst hlynntari tölustöfum. Alls svöruðu 990 einstaklingar könnuninni.

Líkt og niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna eru svarendur allir 18 ára eða eldri. Fréttastofa fór á stúfana og ræddi við nokkra nemendur í Fjölbrautaskólanum við Ármúla, en þar fá nemendur einkunnir sínar í tölustöfum en ekki í bókstöfum líkt og þeir eru vanir úr grunnskóla. Líkt og heyra má í fréttinni hér að neðan hafa margir nemenda sterka skoðun á því hvort þeim finnst betra, bókstafir eða tölustafir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×