Neytendur

Ekki ósann­gjarnt af flug­félagi að láta við­skipta­vin greiða eigin mis­tök

Kjartan Kjartansson skrifar
Kvartandinn í málinu bókaði sjálfur rangan fluglegg hjá flugfélagi. Hann situr sjálfur eftir með kostnaðinn.
Kvartandinn í málinu bókaði sjálfur rangan fluglegg hjá flugfélagi. Hann situr sjálfur eftir með kostnaðinn. Vísir/Vilhelm

Kærunefnd hafnaði kröfu viðskiptavinar flugfélags um endurgreiðslu eftir að hann bókaði sjálfur ranga ferð fyrir mistök. Viðskiptavinurinn taldi það ósanngjarnt að fá ekki að lagfæra bókunina.

Viðskiptavinurinn keypti sér ferð með ónefndu flugfélagi í byrjun október í fyrra og greiddi tæpar þrjátíu þúsund krónur fyrir. Síðar sama dag og hann bókaði áttaði sig hann á því að hann hefði bókað ferð frá ætluðum áfangastað sínum til Keflavíkur en ekki öfugt.

Maðurinn reyndi að ná sambandi við flugfélagið símleiðis en þá var búið að loka skrifstofu þess fyrir helgina. Mánudaginn eftir, daginn fyrir ætlaða brottför, náði maðurinn sambandi og óskaði eftir því að bókunin yrði lagfærð eða að kaupverðið gengi upp í nýja ferð og að hann greiddi mismuninn.

Þessu hafnaði flugfélagið og vísaði til skilmála sinna sem gerðu ekki ráð fyrir endurgreiðslu svo skömmu fyrir ferð. Maðurinn kvartaði þá til kærunefndar vöru- og þjónustukaupa og krafðist endurgreiðslu. Taldi hann skilmála flugfélagsins ósanngjarna.

xxxx

Kærunefndin sagðist hins vegar ekki geta séð að samningurinn um miðakaupin eða skilmálar hans væru ósanngjarnir eða andstæðir góðri viðskiptavenju. Veigamiklar ástæður þyrftu að vera fyrir því að falla frá samningi þannig að hann yrði óskuldbindandi fyrir aðila hans.

Það lægi fyrir að viðskiptavinurinn hefði sjálfur bókað og greitt ferðina á vefsíðu flugfélagsins. Við bóknunina hafi hann þurft að haka við að hann hefði skoðað og samþykkt afbókunarreglur og skilmála. Í skilmálunum hafi komið fram að engin endurgreiðsla fengist vegna breytingar sem væru gerðar á bókun sjö dögum fyrir brottför eða skemur.

Þannig væri ljóst að viðskiptavinurinn hefði tekið þá ákvörðun að semja við flugfélagið um þjónustu gegn greiðslu sem hefði legið fyrir að yrði ekki endurgreidd. Því hafnaði kærunefndin kröfunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×