Körfubolti

Frákastadrottningin fyrir­sæta hjá Victoria's Secret

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Angel Reese stillti sér upp fyrir ljósmyndara þegar hún mætti til vinnu á tískusýningu Victoria's Secret.
Angel Reese stillti sér upp fyrir ljósmyndara þegar hún mætti til vinnu á tískusýningu Victoria's Secret. Getty/ Arturo Holmes

Stjörnur WNBA-deildarinnar í körfubolta nota margar hverjar frítíma sinn eftir tímabilið til að spila í Evrópu til að auka tekjurnar en ein sú öflugasta er aftur á móti upptekin við fyrirsætustörf.

Angel Reese varð í vikunni fyrsta atvinnuíþróttakonan til að ganga tískupallinn á Victoria's Secret-tískusýningunni. Hún færði sig af körfuboltavellinum yfir á tískupallinn og skrifaði söguna í leiðinni.

Framherji Chicago Sky bætist þar með í hóp þekktra fyrirsæta í „Wings Reveal“-hluta sýningarinnar í New York.

Hin 23 ára gamla Reese bar hina einkennandi englavængi sem hafa verið áberandi á sýningunni í áratugi. Þetta er nýr vettvangur fyrir íþróttakonu sem er þekkt fyrir sjálfstraust sitt, persónutöfra og víðtæka skírskotun. Hún er fyrrverandi meistari með Louisiana State University og var valin mikilvægasti leikmaður NCAA-úrslitakeppninnar árið 2023.

Reese hefur líka verið frákastadrottning deildarinnar á fyrstu tveimur tímabilum sínum í WNBA enda með 12,9 fráköst að meðaltali í 64 leikjum í WNBA.

Reese er um leið orðin ein af sýnilegustu persónum íþróttaheims kvenna. Stíll hennar, hreinskilni og áhrif á samfélagsmiðlum hafa hjálpað til við að brúa bilið milli íþrótta, tísku og poppmenningar sem forráðamenn Victoria Secret vildu nýta sér.

Undirfatasýningin hófst árið 2001 og fór fram árlega í næstum tvo áratugi. Victoria's Secret aflýsti sýningunni árið 2019 en endurvakti hana á síðasta ári, en þá var Reese meðal gesta. Nú er hún ein af fyrirsætunum.

„Ég er að stíga inn í sannkallaðan draum: Frá því að vera engill í það að vera Victoria's Secret-engill,“ skrifaði hin 23 ára Reese á Instagram. „Ég fæ loksins vængina mína. Ég mun ganga tískupallinn á Victoria's Secret-tískusýningunni 2025 í fyrsta sinn og það er eins og örlögin hafi ráðið því. Vængirnir eru komnir á, hælarnir tilbúnir. Finnið mig á tískupallinum,“ skrifaði Reese á samfélagsmiðla.

Hér fyrir neðan má sjá myndbrot með henni í fullum Victoria's Secret-skrúða. Smella þarf á myndina til að sjá myndbandið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×