Körfubolti

Martin fann liðsfélagana mun betur en körfuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson og félagar ALBA Berlin fljúga með sigur heim til Þýskalands.
Martin Hermannsson og félagar ALBA Berlin fljúga með sigur heim til Þýskalands. Getty/Matthias Renne

Martin Hermannsson og félagar í Alba Berlín fögnuðu í kvöld sínum fyrsta sigri í Meistaradeildinni í vetur og það í Aserbaídsjan.

Alba Berlín tapaði fyrsta leiknum í Meistaradeildinni í vetur en vann níu stiga sigur á heimamönnum í BC Sabah í kvöld, 85-76.

Íslenski landsliðsbakvörðurinn Martin Hermannsson byrjaði á bekknum hjá Alba en spilaði í rúmar 24 mínútur.

Martin fann liðsfélagana mun betur en körfuna í leiknum. Hann gaf sjö stoðsendingar en skoraði fjögur stig. 

Martin klikkaði á fyrstu fjórum skotunum sínum í leiknum. Það vakti líka athygli að hann klikkaði á fimm af sjö vítaskotunum sínum. Martin var einnig með þrjá stolna bolta í leiknum.

Það munaði þó mikið um okkar mann því Alba vann mínúturnar sem hann spilaði með þrettán stigum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×