Sport

„Við erum skrefi framar öllum öðrum liðum í ár“

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Nic Chamberlain, þjálfari Blika, fagnar Íslandsmeistaratitilinum.
Nic Chamberlain, þjálfari Blika, fagnar Íslandsmeistaratitilinum. Visir/Anton Brink

Breiðablik sigraði FH 3-2, í dramatískum leik í síðustu umferð Bestu deildar kvenna í dag. Þetta var síðasti leikur Nic Chamberlain, þjálfara Breiðabliks, í Bestu deildinni, en hann tekur við Kristianstad eftir tímabilið.

„Það hefur verið frábært að þjálfa Breiðablik, ekki bara á þessu ári heldur líka í fyrra. Við komum hingað með ákveðin markmið og höfum náð þeim. Það er gott að klára síðasta leikinn í Bestu deildinni með sigri,“ sagði Nic Chamberlain, þjálfari Breiðabliks, eftir leikinn í dag.

„Þegar maður lítur yfir tímabilið þá mættust tvö bestu liðin á þessu tímabili hér í dag, en við erum skrefi framar öllum öðrum liðum í ár. Það er gott að enda á sigri í dag til þess að staðfesta það.“

Íslandsmeistararnir 2025.visir/ Anton Brink

Nic var spurður út í tilfinningarnar sem fylgja því að skilja við liðið eftir þetta frábæra tímabil.

„Ég hef ekki hugsað út í það, ef ég á að vera hreinskilin. Þetta verður tilfinningaþrungið, stelpurnar hafa verið frábærar og ég hef byggt upp sérstakt samband við alla hérna í Kópavogi. Það verður erfitt að kveðja.“

Eru einhverjir leikmenn sem þú hefur áhuga á að taka með þér til Kristianstad?

„Það eru nokkrir leikmenn í deildinni almennt sem við munum fylgjast með, en við þurfum fyrst að sjá hvað þarf að gera hjá Kristianstad. Megináhersla mín hefur verið að klára tímabilið vel og ekki trufla leikmenn með öðru. Það eru nokkrar vikur í evrópuleik, ég get kannski aðeins byrjað að vinna með Kristianstad í vikunni en í kvöld ætlum við að fagna tvennunni almennilega og svo er endurheimt á morgun.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×