Körfubolti

Fá­rán­legt eða klókt hjá Kristófer? „Ef það má þá gerir fólk það“

Sindri Sverrisson skrifar
Kristófer Acox hélt um úlnliðinn og var sóttur af sjúkraþjálfara en gat snúið aftur á völlinn hálfri mínútu síðar.
Kristófer Acox hélt um úlnliðinn og var sóttur af sjúkraþjálfara en gat snúið aftur á völlinn hálfri mínútu síðar. Skjáskot/Sýn Sport

Það vakti athygli í seinni framlengingu leiks Þórs Þ. og Vals í Bónus-deild karla þegar Kristófer Acox virtist meiðast og slapp þá við að taka tvö víti sem hann hafði fengið. Hann kom svo aftur inn á völlinn eftir að hafa misst af aðeins 39 sekúndum. Fáránlegt eða klókindi?

Sérfræðingar Bónus Körfuboltakvölds veltu atvikinu fyrir sér og sagði Hlynur Bæringsson að auðvitað yrðu einhverjir pirraðir yfir þessu, að Kristófer virtist gera sér upp meiðsli til þess að betri vítaskytta tæki vítin, en að hann væri hrifinn af þessu. Menn gerðu einfaldlega allt til að vinna leiki og Valur vann einmitt að lokum, 119-117.

Hér að neðan má sjá umræðuna.

Klippa: Kristófer slapp við að taka vítin

Hlynur nýtti tækifærið og skaut aðeins á Valsmenn vegna fyrri yfirlýsingar þeirra í máli Pablo Bertone, þar sem þeir sökuðu Stjörnuna um óheiðarleika. Hann sagði Kristófer hafa verið klókan.

Mjög vel gert að fatta þetta á svona skömmum tíma

„Það lítur þannig út að hann sé ekki mikið meiddur. Ef hann náði að fatta þetta... hann veit alveg að hann hefur verið að skjóta illa og að það er væntanlega einhver betri vítaskytta. Ef hann fattaði þetta á svona skömmum tíma þá er það bara mjög vel gert. Auðvitað verður einhver pirraður yfir þessu.

Kannski meiddi hann sig, allt í góðu, en þetta sýnir í enn eitt skiptið að í meistaraflokki karla í efstu deild… ef það má, þá gerir fólk það. Ég veit að fólki fannst þetta skrýtið, að þetta megi í raun og veru, en það var þetta sem gerðist þarna hjá Val,“ sagði Hlynur.

Greinilega löglegt en algjörlega fáránlegt

„Ég veit að þeir eru nýbúnir að skrifa einhvern pistil um anda leiksins… Ég dæmi þetta ekki,“ bætti Hlynur við og sagðist sjálfur hafa verið tilbúinn að gera það sama sem leikmaður.

Hermann Hauksson var ekki jafnhrifinn og kallaði eftir reglubreytingum svo að menn gætu ekki komið svo fljótt inn á völlinn eftir að hafa farið meiddir af velli.

„Þetta er greinilega löglegt en mér finnst algjörlega fáránlegt að horfa upp á þetta. Ef það er þannig að þetta séu ekki það mikil meiðsli að maðurinn geti tekið vítaskot þá hefði ég bara viljað sjá hann taka þessi vítaskot. En að fara út af og geta bara fengið að koma inn á strax aftur er fáránlegt. Í handboltanum þarftu held ég að sitja af þér tvær sóknir. Ef það þarf að hlúa að þér þá þarftu að vera út af í einhvern tíma,“ sagði Hermann en umræðuna má heyra í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×