Körfubolti

Diljá stórskotleg í lokin í endur­komu í Hvera­gerði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diljá Ögn Lárusdóttir var frábær með Stjörnunni í dag.
Diljá Ögn Lárusdóttir var frábær með Stjörnunni í dag. Vísir/Diego

Diljá Ögn Lárusdóttir neitaði að fara ekki úr Hveragerði með öll stigin þegar Stjörnukonur unnu fjögurra stiga endurkomusigur á Hamar/Þór, 85-81, í Bónusdeild kvenna í körfubolta í dag.

Hamar/Þór þarf því að bíða lengur eftir fyrsta sigri sínum á tímabilinu en þetta var sjötta tap liðsins í röð. Stjörnukonur töpuðu fjórum fyrstu leikjum sínum en hafa síðan unnið tvo leiki í röð.

Diljá var bara með níu stig eftir fyrstu þrjá leikhlutana og Stjörnukonur voru sex stigum undir, 64-56.

Diljá sýndi stórkostlega frammistöðu í lokaleikhlutanum og hreinlega landaði þessum sigri með átján stiga leikhluta. Hún endaði leikinn með 27 stig.

Það var samt spenna allt til loka leiksins.

Gestirnir úr Garðabæ unnu Keflavík í síðustu umferð og voru fimm stigum yfir í hálfleik, 44-39. Heimakonur unnu þriðja leikhlutann 25-12 og virtust vera að fara að landa langþráðum sigri þegar Diljá tók til sinna ráða.

Diljá nýtti 11 af 19 skotum sínum og var með 3 stolna og 2 stoðsendingar auk stiganna 27.

Hjá Stjörnunni var Eva Wium Elíasdóttir með 15 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar og Greeta Uprus skoraði 14 stig, tók 8 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Shaiquel Mcgruder lét sér nægja að skora 11 stig en tók 11 fráköst og stal 4 boltum.

Jovana Markovic var öflug hjá Hamar/Þór í dag með 23 stig og 11 fráköst en Mariana Duran bauð næstum því upp á þrennu, skoraði 20 stig, tók 10 fráköst og gaf 9 stoðsendingar. Jóhanna Ýr Ágústsdóttir setti niður fimm þrista úr níu tilraunum og var með 15 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×