Erlent

Segir Banda­ríkin ekki geta ráðist inn

Jón Þór Stefánsson skrifar
Bola Tinubu, forseti Nígeríu, og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Bola Tinubu, forseti Nígeríu, og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Getty

Talsmaður Nígeríuforseta segir Bandaríkin ekki geta ráðist inn í Nígeríu vegna ásakanna um að þar í landi standi yfir umfangsmikil dráp á kristnum mönnum af hálfu íslamskra öfgamanna. Hann segir Trump, sem sagðist í gær undirbúa Stríðsmálaráðuneyti Bandaríkjanna undir innrás í Nígeríu, byggja hótanir sínar á misvísandi fréttaflutningi.

Trump sagði að stjórnvöld í Nígeríu stæðu hjá meðan íslamskir hryðjuverkamenn væru að myrða kristna. Mögulega myndu Bandaríkin þurfa að skerast í leikinn í Nígeríu, í færslu á hans á eigin samfélagsmiðli Truth Social í gær. Ef kæmi til þess færu þeir inn með „byssur á lofti“ og yrði aðgerð þeirra „snögg, grimmileg og sæt.“

Daniel Bwala, talsmaður Bola Tinubu Nígeríuforseta, segir í viðtali við AP að hótun Bandaríkjaforseta sé í „stíl Trumps, þar sem hann fer inn af miklu afli til þess þröngva sér að samningaborðinu til þess að eiga samtal.“

Trump sem og Ted Cruz, þingmaður Repúblikanaflokksins sem hefur farið mikinn í umræðunni um trúarofbeldi í Nígeríu, hafa, að sögn Bwala, stutt sig við tíu ára gamlar upplýsingar frá því þegar hryðjuverkasamtökin Boko Haram voru sem öflugust, og reyndu að koma á sharía-löggjöf í landinu.

„Þegar kemur að mögulegum hernaðaraðgerðum í Nígeríu, þá verður að hafa í huga á leiðtogarnir tveir eru sammála um  málefnið. Það er ekki eitthvað sem menn geta ráðist í einhliða, sérstaklega í ljósi þess að landið er sjálfstætt og styður ekki við þennan glæp,“ segir Bwala

Fram kemur að Tinubu hafi lofað að vinna með Bandaríkjunum og öðrum erlendum aðilum til þess að „dýpka samstarf og vinna að verndun allra trúarhópa.

Nígerska þjóðin, sem er sú fjölmennasta í Afríku, skiptist nokkurn veginn í tvennt hvað trúarbrögð varðar, helmingurinn er múhameðstrúar, og hinn helmingurinn kristinn.

Samkvæmt fyrri umfjöllun AP um ástandið í Nígeríu segir að fórnarlömb árása í norðurhluta landsins, þar sem flestar slíkar árásir eiga sér stað og múslimar eru í meirihluta, séu að stærri hluta til múslimar en kristnir.

Þá séu ástæður árásanna margvíslegar, og geta til að mynda varðað landsvæði og auðlindir. Engu að síður séu jafnframt árásir af trúarlegum toga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×