Körfubolti

Kristófer Acox kallar sig glæpa­mann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristófer Acox í leik með Valsmönnum í vetur.
Kristófer Acox í leik með Valsmönnum í vetur. Vísir / Guðmundur

Íslenski körfuboltamaðurinn Kristófer Acox hefur verið mikið í fréttum síðustu mánuði en aðallega vegna þess sem hann hefur gert utan vallar. Hann gerir þessa viðburðarríku mánuði upp á samfélagsmiðlum með stuttri en afar sérstakri yfirlýsingu.

Kristófer missti fyrst af Evrópumótinu með íslenska landsliðinu í haust þar sem landsliðsþjálfarinn neitaði að velja hann í landsliðið þótt flestir væru á því að íslenska landsliðið gæti notað einn af betri körfuboltamönnum landsins.

Svo hófst tímabilið þar sem Valsmenn hafa verið í vandræðum og aðeins unnið tvo af fyrstu fimm leikjunum sínum. Kristófer hefur skorað 11,8 stig og tekið 9,8 fráköst í leik.

Færsla Kristófers og myndin af honum í Coolbet-bolnum.@krisacox

Kristófer tilkynnti fljótlega eftir að tímabilið hófst um samstarf sitt við erlent veðmálafyrirtæki sem er ólöglegt hér á landi.

Kristófer greindi frá ákvörðuninni á Instagram þar sem hann sagði að hann væri orðinn meðlimur „Coolbet-fjölskyldunnar“. „Það verða pottþétt einhverjir ósáttir, en sjitt maður, ég er vanur því,“ sagði Kristófer í tilkynningunni sem hann síðan fjarlægði af síðunni eftir hörð viðbrögð úr mörgum áttum. Þau komu þó meira til vegna þess sem gerðist næst.

Kristófer birtist nefnilega í framhaldinu í auglýsingu Coolbet á samfélagsmiðlinum X þar sem fólki var ráðlagt í veðmálum fyrir nokkra af körfuboltaleikjum þess kvölds.

„Það hryggir mig mjög að Kristófer fari þessa leið til að þéna peninga,“ sagði Hannes S. Jónsson, framkvæmdastjóri KKÍ, þá í samtali við Vísi daginn eftir

Myndböndin sem Kristófer setti á Instagram og myndina sem Coolbet birti á X voru síðan fjarlægð. Kristófer er hvergi sjáanlegur á samfélagsmiðlum Coolbet og sömuleiðis er Coolbet hvergi sjáanlegt lengur á samfélagsmiðlum Kristófers.

Kristófer gerir upp þessa síðustu mánuði með myndaveislu á samfélagsmiðlinum Instagram en við hana skrifar hann: „Síðustu mánuðir hjá glæpamanninum Kristófer Acox,“ eins og sjá má hér fyrir neðan. Þar má sjá hann á einni myndinni í bol merktum Coolbet.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×