Fótbolti

„Vel gert að geta haldið á­fram í svona á­standi“

Aron Guðmundsson skrifar
Ólafur Ingi Skúlason er á leið í sinn þriðja leik sem þjálfari Breiðabliks.
Ólafur Ingi Skúlason er á leið í sinn þriðja leik sem þjálfari Breiðabliks.

Ólafur Ingi Skúlason, þjálfari karlaliðs Breiðabliks í fótbolta, ber virðingu fyrir úkraínska liðinu Shakhtar Donetsk sem Blikar mæta í dag í Sambandsdeild Evrópu. Shakhtar hefur þurft að glíma við áskoranir undanfarinn áratug sem fá félög geta tengt við.

Lið Shak­htar Do­netsk er þekkt stærð í Evrópu, reglu­legur þátt­takandi í Meistara­deild Evrópu og árið 2009 bar liðið sigur úr býtum í Evrópu­bikarnum en hefur frá árinu 2014, eða frá því að Rússar inn­limuðu Krím­skagann, verið á ver­gangi fjarri sínum heima­högum í Do­netsk héraði, bæði í Úkraínu og svo flakkað á milli landa með heima­leiki sína í Evrópu eftir inn­rás Rússa í Úkraínu.

Donbass leikvangurinn glæsilegi, heimavöllur Shakhtar sem tekur um 52 þúsund manns í sæti, en hefur ekki nýst Shakhtar síðan fyrir árið 2014. Vísir/Getty

Sökum hennar fer leikurinn við Breiða­blik fram í Kraká í Póllandi en ekki á glæsi­legum Donbass leik­vangi Shak­htar. Þrátt hefur allt sem gengið hefur á er Shak­htar enn að keppa á efstu gæða­stigum fót­boltans.

„Þetta er ótrú­lega vel gert hjá þeim. Að geta haldið áfram í svona ástandi eins og hefur verið,“ segir Ólafur Ingi Skúla­son, þjálfari Breiða­bliks um lið Shak­htar. „Eitt­hvað sem við getum þó lítið pælt í. Við erum bara að fara mæta þeim, þeir hafa gert mjög vel í því að halda utan um þetta þrátt fyrir það sem hefur gengið á og náð að vera áfram með sam­keppnis­hæft lið á mjög háu gæða­stigi í evrópska boltanum. Það er magnað af­rek í raun og veru. Við ein­beitum okkur þó bara að því að mæta þeim inn á vellinum og reyna að valda þeim usla.“

Blikar eru með eitt stig eftir fyrstu tvo leiki sína í Sam­bands­deildinni og þurfa að vera á sínum besta degi til að ná í úr­slit gegn Shak­htar sem er lið að mestu skipað leik­mönnum frá Úkraínu og Brasilíu.

„Þeir eru heilt yfir góðir í flestu. Mjög líkam­lega sterkt lið, margir fljótir, sterkir og öflugir leik­menn. Það er mjög margt sem ber að varast í þeirra leik og sér­stak­lega ef þeir fá mikið svæði og tíma á bolta. Þá getur þetta orðið erfitt. Við þurfum því að vera agressívir, þéttir á köflum og svo hug­rakkir á boltann. Þora aðeins að halda í hann.“

Lið Shakhtar verið að spila heimaleiki sína í úkraínsku deildinni í borginni Lviv en heimaleikir liðsins í Evrópu hafa verið leiknir í Þýskalandi, Ungverjalandi eða Póllandi.Vísir/Getty

„Við metum þá bara góða. Við erum búnir að skoða þá vel og vitum það vel að þetta er hörku lið. En við Ís­lendingar vitum það vel að þegar kemur að níutíu mínútum í fót­bolta, ef við spilum á okkar hæsta gæða­stigi þá getum við strítt þeim. Það er planið. Auðvitað eru þeir sigur­strang­legri en við erum kok­hraustir og ætlum okkur að reyna fá eitt­hvað úr þessum leik.“

Ánægður með mjög margt

Ólafur Ingi tók við þjálfun Breiðabliks undir lok síðasta mánaðar af Halldóri Árnasyni sem var sagt upp störfum. Hann hafði lítinn tíma til þess að undirbúa sitt lið því strax tók við tveggja leikja mikilvæg hrina, leikur gegn KuPs í Sambandsdeildinni og svo úrslitaleikur gegn Stjörnunni í Bestu deildinni um Evrópusæti á næsta tímabili. 

Niðurstaðan jafntefli gegn KuPs og sigur gegn Stjörnunni sem var hins vegar ekki nægilega stór til þess að tryggja Blikum Evrópusætið. Ólafur hefur hins vegar fengið góðan tíma frá þeim leik til þess að undirbúa lið sitt fyrir leikinn gegn Shakhtar í dag. 

„Þetta hefur verið mjög skemmti­legt. Eins og þú segir var að­dragandinn að þessu stuttur og stutt á milli fyrstu leikja en ég var mjög ánægður með stóran hluta af því sem við sýndum í þessum fyrstu tveimur leikjum undir minni stjórn. Síðan þá höfum við haldið áfram þar sem frá var horfið, haft smá tíma til að undir­búa þennan leik og halda okkur í formi eftir að deildar­keppnin kláraðist heima. Þetta hafa verið skemmti­legir dagar og verða áfram fram í miðjan desember að minnsta kosti.“

Frá Evrópuleik Breiðabliks frá því fyrr á tímabilinu gegn Lech Poznan. Hér má sjá Viktor Karl Einarsson, leikmann liðsinsVísir/Getty

Nýtur góðs af reynslu frá fyrri tíð

Blikar verða í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar fram í næsta mánuð en hér heima er öllum mótum lokið. Félagið hefur verið í þessari stöðu áður og njóta Ólafur og hans teymi góðs af því. 

„Blessunar­lega er félagið með reynslu af þessu, þekkir þetta vel. Strákarnir fá smá frí eftir þennan leik, hvíla líkama og sál og svo hefst undir­búningur fyrir næsta leik í Sam­bands­deildinni gegn Sam­sun­spor heima og í kjölfarið Sham­rock Rovers. Við erum bara brattir með þetta, svo styttir þetta undir­búningstíma­bilið, það er alltaf plús. Reynslan og þekkingin af því er hérna innan­búðar og mjög gott að koma inn í eitt­hvað sem hefur verið gert áður.“

Leikur Shakhtar Donetsk og Breiðabliks í deildarkeppni Sambandsdeildar Evrópu verður sýndur í beinni útsendingu á Sýn Sport Viaplay rásinni í dag og hefst klukkan korter í sex. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×