Viðskipti innlent

Bretar veita Alvotech leyfið sem fékkst ekki í Banda­ríkjunum

Árni Sæberg skrifar
Róbert Wessmann, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech.
Róbert Wessmann, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech. Vísir/Vilhelm

Breska lyfjastofnunin, MHRA, hefur veitt markaðsleyfi fyrir allar útgáfur Gobivaz, hliðstæðu Alvotech við líftæknilyfið Simponi. Bandaríska lyfjastofnunin hafnaði Alvotech um leyfi fyrir sama lyf að svo stöddu á mánudag. Síðan þá hefur markaðsvirði félagsins lækkað um tæpan þriðjung.

Líkt og ítarlega hefur verið fjallað um barst tilkynning frá Alvotech á mánudagsmorgun um að bandaríska lyfjastofnunin veitti félaginu að svo stöddu ekki leyfi fyrir AVT05, hliðstæðu við gigtarlyfið Simponi. Við lok markaða á föstudag stóð gengi hlutabréfa félagsins hér á landi í 950 krónum á hlut. 

Strax á mánudag fór gengið niður í 680 krónur og hafði aldrei verið lægra. Í gær var það komið niður í 638 krónur en þegar fréttin er skrifuð hefur gengið rétt lítilega úr sér og stendur í 648 krónum.

Fá leyfi á Bretlandseyjum

Í tilkynningu frá Alvotech til Kauphallar í dag segir að MHRA hafi veitt leyfi fyrir allar útgáfur af Gobivaz, hliðstæðu Alvotech við Simponi. Samstarfsaðili Alvotech við markaðssetningu hliðstæðunnar í Evrópu sé Advanz Pharma, alþjóðlegt lyfjafyrirtæki með höfuðstöðvar í Bretlandi sem markaðssetur lyfseðilsskyld lyf, stungu- og innrennslislyf og lyf við sjaldgæfum sjúkdómum.

Markaðsleyfið heimili sölu í Bretlandi á Gobivaz 50 mg/0.5 mL og 100 mg/mL í áfylltri sprautu og lyfjapenna, til meðferðar fullorðinna við liðagigt, sóraliðagigt, hrygggigt og sáraristilbólgu og sjálfvakinni liðabólgu í börnum.

Mannalyfjanefnd Lyfjastofnunar Evrópu hafi nýlega mælt með samþykki á markaðsleyfi fyrir lyfið á öllu Evrópska efnahagssvæðinu.

Staðfesti styrk og getu félagsins

„Þetta samþykki staðfestir styrk og getu Alvotech á sviði þróunar og framleiðslu hliðstæðna líftæknilyfja. Til þess höfum við byggt upp sérhæfða og fullkomna aðstöðu þar sem allir þættir í þróun og framleiðslu eru á einni hendi. Við hlökkum til að auka aðgengi að þessu mikilvæga lyfi til meðferðar við ýmsum langvinnum ónæmissjúkdómum, þegar markaðsetning hliðstæðunnar hefst á næstu vikum í samstarfi við Advanz Pharma,“ er haft eftir Joseph McClellan, framkvæmdastjóra rannsókna og framleiðslu hjá Alvotech.

„Með þessu samþykki getum við komið Gobivaz í hendur sjúklinga og meðferðaraðila í Bretlandi og stuðlum þar með að betra aðgengi að mikilvægu lyfi við mörgum ónæmissjúkdómum,“ er haft eftir Nick Warwick, yfirmanni rannsókna hjá Advanz Pharma.

Alvotech beri ábyrgð á þróun og framleiðslu Gobivaz, en Advanz Pharma fari með einkarétt til markaðssetningar lyfsins í Evrópu, að Bretlandi meðtöldu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×