Erlent

Flugvallarþorp gæti öðlast fram­halds­líf

Kristján Már Unnarsson skrifar
Leiguflugvél frá París að renna í hlað á Kangerlussuaq-flugvelli í haust.
Leiguflugvél frá París að renna í hlað á Kangerlussuaq-flugvelli í haust. Egill Aðalsteinsson

Vöxtur ferðaþjónustu og koma danskra hermanna virðast ætla að bjarga grænlenska þorpinu Kangerlussuaq frá því að leggjast í eyði. Það varð til vegna flugvallar og bjuggust flestir við að byggðin myndi hrynja við brotthvarf millilandaflugs í fyrra. Annað er að koma á daginn.

Í fréttum Sýnar var haldið til Kangerlussuaq, sem liggur norðan heimskautsbaugs. Það var með tárum sem íbúar þorpsins kvöddu breiðþotu Air Greenland í lok nóvember í fyrra. Kaupmannahafnarflugið var að flytjast til Nuuk og forsenda byggðarinnar að bresta.

Airbus A330-þota Air Greenland lagði upp í síðasta reglubundna áætlunarflugið milli Kangerlussuaq og Kaupmannahafnar í lok nóvember í fyrra.KNR/skjáskot

Íslendingur sem starfar í flugturninum, Þórður Eggert Viðarsson flugumferðarstjóri, segir flugið hafa verið grunninn að heilsársbúsetu. Þar bjuggu um 550 manns áður en þotuflugið fluttist til Nuuk.

„Menn héldu að hér færi allt í steik, ef svo má segja. En íbúafjöldinn hefur mér vitanlega ekki farið niður fyrir fjögurhundruð, aðeins tosast upp á við,“ segir Þórður.

Þórður Eggert Viðarsson, flugumferðarstjóri Isavia ANS í Kangerlussuaq.Egill Aðalsteinsson

Leiguflugvél á vegum franskrar ferðaskrifstofu er að koma í beinu flugi frá París að hausti. Á sama tíma eru rútur við flugstöðina að skila ferðamönnum í flug.

„Hér eru fleiri leiguvélar að koma í tengslum við komur farþegaskipa hérna í höfnina. Þannig að síðustu þrjú-fjögur ár eftir covid hefur bara verið stígandi í því.“

Þrjár rútur komnar með ferðamenn að flugstöðinni.Egill Aðalsteinsson

Allt þar til nýja flugbrautin var opnuð í Nuuk var Kangerlussuaq samgöngumiðstöð Grænlands og skiltið við flugstöðina, sem bendir á hina ýmsu áfangastaði víða um heim, er kannski yfirlýsing um það að héðan lágu leiðir til allra átta.

Miðað við fjölda erlendra ferðamanna á vellinum er erfitt að ímynda sér að Kangerlussuaq sé að verða eyðiþorp. Þarna í kring er einnig spennandi náttúra.

Stór jökulfljót renna til sjávar í Kangaerlussuaq. Þaðan liggur vegur upp að Grænlandsjökli.Egill Aðalsteinsson

„Ferðafyrirtæki sá möguleika, keypti hótelið hérna,“ segir Þórður.

Upphaflega var hér amerísk herstöð en þegar herinn fór árið 1992 héldu menn einnig að byggðin leggðist í eyði. Þá kom millilandaflug Air Greenland til bjargar. Með lengstu flugbraut Grænlands, 2.800 metra langri, var þetta lengi vel eini staður landsins með áætlunarflug á þotum milli landa.

Flugbrautin í Kangerlussuaq er 2.800 metra löng. Hér sést hún úr flugprófunarvél Isavia.Egill Aðalsteinsson

„Þetta er nauðsynlegur völlur, bara fyrir yfirflugið líka. Það þarf að hafa hér ákveðna starfsemi. Það eru þó nokkrar tekjur fyrir völlinn bara í yfirfluginu,“ segir flugumferðarstjórinn.

Og núna er danski herinn byrjaður að koma sér fyrir en hann hyggst staðsetja F-16 herþotur á vellinum. Fleiri hermenn og fleiri ferðamenn þýða fleiri störf.

Tvær innanlandsvélar Air Greenland ásamt erlendu leiguflugvélinni á flughlaðinu. Fremst fyrir miðju má sjá skiltið sem vísar til hinna ýmsu staða á jörðinni.Egill Aðalsteinsson

„Vonandi verður það til að bjarga þessari byggð.“

Ör umskipti Grænlands úr veiðimannasamfélagi til nútímans hafa þó kostað sitt.

„Hér eru erfiðleikar í samfélaginu, þessi félagslegu vandamál. Við höfum alveg séð þau beint í andlitið, því miður,“ segir Þórður Eggert Viðarsson í frétt sem sjá má hér:


Tengdar fréttir

Danir stórefla varnir Grænlands með freigátum og orustuþotum

Dönsk stjórnvöld hafa í samráði við Grænlendinga tilkynnt um stóraukin hernaðarútgjöld vegna Grænlands og norðurslóða. Ákvörðunin þýðir miklar framkvæmdir á næstu árum í þessu næsta nágrannalandi Íslands og aukna viðveru herflugvéla og herskipa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×