Fótbolti

Cristiano Ronaldo fær að hitta Donald Trump í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo varð að ósk sinni og hittir Donald Trumo Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu í dag.
Cristiano Ronaldo varð að ósk sinni og hittir Donald Trumo Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu í dag. Getty/Brian Lawless

Cristiano Ronaldo hefur óskað eftir því að hitta Donald Trump og í dag verður honum að þessari ósk sinni.

Þetta er fyrsta ferð Ronaldo til Bandaríkjanna frá því að fyrri ásakanir um nauðgun komu upp.

Ronaldo lýsti yfir ósk sinni um að hitta Donald Trump í viðtali við breska fjölmiðlamanninn Piers Morgan.

Hin fertuga stórstjarna sagði að bandaríski forsetinn væri einn þeirra sem gætu breytt heiminum eða hjálpað til við að breyta honum.

„Hann er manneskja sem mér líkar mjög vel við. Vegna þess að ég held að hann geti látið hluti gerast og mér líkar við slíkt fólk. Markmið mitt er að hitta Donald Trump og ræða um heimsfrið. Geturðu reddað því?“ sagði Cristiano Ronaldo.

Nú munu Cristiano Ronaldo og Donald Trump hittast í Hvíta húsinu í Washington í dag, samkvæmt bandarískum fjölmiðlum eins og New York Times.

Sádi-arabíski krónprinsinn Mohammed bin Salman mun einnig hitta Donald Trump við þetta tækifæri. Ástæðan er sögð vera sú að Donald Trump hyggst selja Sádi-Arabíu F-35 orrustuþotur.

Þeir munu hittast í skrifstofu Trump, borða hádegisverð með ríkisstjórninni og taka þátt í formlegum kvöldverði um kvöldið.

Cristiano Ronaldo, sem spilar með sádi-arabíska liðinu Al Nassr, hefur sést með sádi-arabíska prinsinum við opinber tækifæri.

Samkvæmt fréttum hefur Cristiano Ronaldo ekki komið til Bandaríkjanna síðan 2017.

Hann hefur forðast landið vegna hættu á að verða handtekinn á bandarískri grund.

Fyrri ásakanir um nauðgun frá Las Vegas árið 2009 voru látnar niður falla árið 2022.

Á sunnudaginn tryggði Portúgal sér sæti á HM í fótbolta í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada í sumar.

Þegar Gianni Infantino, forseti FIFA, heimsótti Donald Trump á mánudaginn notaði bandaríski forsetinn tækifærið til að vara Los Angeles og Seattle enn og aftur við því að leikir gætu verið færðir af öryggisástæðum.

Donald Trump varaði einnig meðgestgjafann Mexíkó við árásum í yfirstandandi stríði gegn eiturlyfjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×