Körfubolti

Litáar unnu Breta á flautukörfu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ignas Sargiunas var hetja þjóðar sinnar í dramatískum sigri í kvöld.
Ignas Sargiunas var hetja þjóðar sinnar í dramatískum sigri í kvöld. Getty/ Josh Nesden

Það voru næstum því fleiri óvænt úrslit í riðli Íslands í undankeppni HM í körfubolta í kvöld. Ísland vann Ítalíu á útivelli og Bretar voru rosalega nálægt því að vinna Litáa. Þeir hreinlega köstuðu frá sér sigrinum í leikslok.

Litár lentu mest átján stigum undir í leiknum en unnu sig inn í leikinn og náðu að landa sigri í blálokin.

Bretar byrjuðu mun vetur og voru þrettán stigum yfir í hálfleik, 51-38. Litáar unnu þriðja leikhlutann 30-16 og komu sér aftur inn í leikinn.

Spennan var mikil í fjórða og síðasta leikhlutanum og úrslitin réðust ekki fyrr en á síðustu sekúndu leiksins.

Bretar voru 88-83 yfir þegar örfáar sekúndur voru eftir en þá tók Ignas Sargiunas til sinna ráða.

Sargiunas skoraði þrist, stal síðan boltanum og tryggði Litáum sigurinn með þriggja stiga flautukörfu. Úrslitin 89-88 fyrir Litáen.

Sargiunas skoraði 27 stig fyrir Litáa í leiknum og var langstigahæstur.

Carl Wheatle og Myles Hesson voru stigahæstir hjá Bretum með átján stig hvor.

Ísland tekur á móti Bretlandi í Laugardalshöllinni á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×