Skoðun

Ég trúi á orkuskiptin! Hverju trúir þú?

Tinna Jóhannsdóttir skrifar

Við Íslendingar stöndum á tímamótum sem við þekkjum í raun mjög vel. Við sem þjóð höfum tvívegis gengið í gegnum orkuskipti og þau breyttu lífsgæðum okkar til frambúðar.

Nú er komið að þriðju orkuskiptunum; þeirri umbreytingu að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir okkar eigin endurnýjanlegu orku í samgöngum, flugi, siglingum, stóriðju og daglegu lífi. Þetta eru orkuskiptin sem gera okkur kleift að hætta að flytja inn milljón tonn af olíu á ári og nýta í staðinn þá grænu, endurnýjanlegu orku sem við höfum yfir að ráða hér heima.

Munurinn að þessu sinni er þó sá að þriðju orkuskiptin snúast ekki bara um þægindi eða framfarir heldur um framtíð landsins okkar, orkuöryggi og sjálfstæði okkar og komandi kynslóða þegar kemur að orkumálum almennt. Og nú þarf hver og einn að spyrja sig: Hverju trúi ég?

Fyrstu orkuskiptin hófust fyrir rúmri öld þegar rafvæðing landsins byrjaði og fólk ferðaðist milli landshluta til að byggja upp rafstöðvar, stíflur og innviði. Þetta voru algjörir brautryðjendur síns tíma. Seinni orkuskiptin snerust um nýtingu jarðvarmans og hann varð grunnur hitaveitna með þeim verðlaunum að lífsgæði landsmanna tóku stökk fram á við.

Þessi orkuskipti, sem við tökum sem sjálfsögðum í dag, náðu fram að ganga vegna elju, framsýni og þrautseigju þeirra kynslóða sem framkvæmdu þau. Og vegna þess að neyðin, loftgæðin og olíuverð þrýstu á breytingar.

En hver er hvati okkar nú, er hann ekki eins mikilvægur og aðkallandi og miðar okkur nógu vel?

Það er augljóst að umhverfislegur ávinningur þriðju orkuskiptanna er ótvíræður. Orkuskiptin munu draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Verðmæti þeirra ytri áhrifa af losun sem má forðast með orkuskiptunum hleypur á hundruðum milljarða króna.

Orkuskiptin stuðla líka að orkuöryggi okkar sem þjóðar. Við ætlum að vera aflvakar sjálfbærrar framtíðar og þá þurfum við að hraða orkuskiptunum. Við sem þjóð erum háð framleiðslu erlendra ríkja þegar kemur að olíuframleiðslu, framleiðslu sem oftar en ekki á sér stað í ríkjum þar sem stríð og pólitískur ágreiningur á sér stað og setur okkur í þá stöðu

að hafa enga stjórn á ytri áhrifum á verðmyndun olíunnar. Fyrir utan það að á ári hverju flytjum við inn meira en milljón tonn af olíu og greiðum fyrir hana á annað hundrað milljarða króna, peningur sem fer úr landi. Það er sorgleg staðreynd þegar við höfum alla þessa endurnýjanlegu orku hérlendis sem við getum og kunnum þjóða best að nýta.

Orkuskiptin munu líka skapa bein og afleidd störf. Aukin umsvif í framleiðslu endurnýjanlegrar orku og orkuöflun munu skapa störf. Störf sem skila í mörgum tilfellum miklum ávinningi til samfélagsins í gegnum eignarhald þeirra fyrirtækja sem slíka starfsemi reka og þeirra lífsgæða sem þau tryggja.

Á hverju ári framleiðum við um 20 TWst (teravattstundir) af raforku á Íslandi. Full orkuskipti í flugi, skipum, þungaflutningum, verksmiðjum og almenningssamgöngum kalla vissulega á aukna raforkuframleiðslu á næstu áratugum. Á þessum áratugum þarf uppbygging að eiga sér stað í raforkukerfinu öllu og töluvert þarf að framkvæma. En það er ekki sokkinn kostnaður, því ávinningurinn er margþættur af þeim aðgerðum. Ávinningur fyrir loftslagið, orkuöryggi, fjárhag þjóðarinnar og samfélagið allt en einnig ímyndarlegur ávinningur. Við erum nefnilega í kjöraðstæðum til að byggja hér upp ímynd af landinu okkar sem er eftirsóknarverð og einstök.

Hreina og græna landið Ísland

Í hugum einhverra hljómar þetta kannski eins og útópía en við höfum tækifæri til að verða “Græna og hreina” landið, landið sem fólk elskar að ferðast til fyrir margar sakir. Til dæmis vegna þeirrar staðreyndar að við erum land sem þú getur heimsótt til að komast í kalt frí ( e. coolcation). Kalda, napurlega og að okkur finnst, ergilega loftslagið hér er ekki lengur veikleiki því slík frí eru orðin mjög vinsæl og munu bara verða vinsælli á næstu árum. Ástæðan er hlýnun jarðar. Hitastigið á meginlandinu hefur hækkað það mikið að fólk þyrstir í að komast í frí til kaldra landa. Við getum því slegið tvær flugur í einu höggi og markaðssett okkur sem land þar sem þú getur bæði upplifað kulda en líka ferðast um landið á endurnýjanlegri orku sem er framleidd hér á köldu, en samt svo heitu, eyjunni okkar þar sem jarðvarminn býr til verðmæti og betri lífsgæði fyrir okkur öll.

En talandi um ferðaþjónustu, þá er mikilvægt að beina sjónum að bílaleigunum sem eru jafn mislangt komnar í orkuskiptunum og þær eru margar. Sumar standa sig vel og aðrar ekki, sumar hafa ríkan vilja til að gera betur en aðrar ekki, en sammerkt með þeim öllum er að þær hafa upplifað aðgerðir stjórnvalda sem eru ekki til þess fallnar að hvetja þær til góðra verka og dáða í því að endurnýja bílaflotann sinn yfir í bíla sem knúnir eru endurnýjanlegum orkugjöfum.

Það er nefnilega lykilatriði þegar kemur að orkuskiptum í samgöngum að bílaleigurnar auki hlutfall rafbíla í sínum flota. En af hverju ?

Bílaleigur flytja inn mjög stóran hluta af fólksbílum landsins. Eftirmarkaðurinn ( notaðir bílar) er að mjög stórum hluta drifinn áfram af þeirra bílum og því ljóst að ef þeirra framlag til orkuskiptanna verður ekki meira á næstu árum, þá mun hlutfall rafbíla í umferð ekki aukast mikið. Hlutfall rafbíla af innfluttum bílum bílaleiganna var komið nálægt 20% árið 2023 en svo kom bakslag sem á sér m.a. skýringar í aðgerðum stjórnvalda og hlutfallið féll niður í 7-8% í fyrra og það sem af er þessu ári.

Ég trúi því svo innilega að okkur sem þjóð langi til að Ísland verði þessi hreini og græni áfangastaður þar sem ferðamenn keyra um þetta ótrúlega land og náttúru sem á sér enga hliðstæðu, á milli eldsumbrota og upplifa það mögulega í fyrsta sinn að keyra snöggan, hljóðlátan og þægilegan rafbíl. Hreint og grænt land þar sem ferðamenn hafa eiginlega ekki val um neitt annað en að leigja rafmagnsbíl, allt markaðsefni miðar að því að hvetja þá til þess að keyra um græna landið á umhverfisvænan hátt og hlaða á hleðsluneti landsins sem er fyrir löngu orðið vel þétt og gott fyrir þá langdrægu bíla sem framleiddir eru í dag. Ég trúi því líka að stjórnvöld sjái hag sinn í því að styðja við þessa vegferð bílaleiganna með aðgerðum sem hvetja en ekki letja. Ég trúi því líka að innan skamms muni bílaleigur rukka ferðamenn um miklu hærra verð fyrir leigu á þeim bílum sem ekki eru drifnir áfram af endurnýjanlegum og umhverfisvænum orkugjöfum, þ.e.a.s. ef þeir neyðast til að nota slíka bíla til að komast upp á hálendi eða einhverjar ótroðnar slóðir. Ég trúi því líka að við sem kynslóðir nútímans ætlum að eiga hlutdeild í sögum framtíðarinnar og geta sagt barnabörnum okkar, með stolti og bliki í auga að við höfum raunverulega gert gagn, tekið erfiðar ákvarðanir og barist með kjafti og klóm fyrir umbreytingum og bættum lífsskilyrðum, samfélaginu og Íslandi öllu til heilla.

Ég er hætt að trúa á álfasögur. Núna trúi ég á orkuskiptin! Hverju trúir þú?

Höfundur starfar sem forstöðumaður markaðsmála og sjálfbærni hjá Orku náttúrunnar.




Skoðun

Sjá meira


×