Fótbolti

38 ára gamall Vardy í markastuði í Seríu A

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jamie Vardy fagnar seinna marki sínu fyrir Cremonese í kvöld.
Jamie Vardy fagnar seinna marki sínu fyrir Cremonese í kvöld. Getty/Image Photo Agency/

Jamie Vardy skoraði tvö mörk í kvöld þegar Cremonese endaði tólf leikja taplausa hrinu Bologna með 3-1 sigri.

Í leiknum mættust heimalið sem hafði ekki tapað í tólf leikjum og gestir sem höfðu tapað síðustu þremur deildarleikjum sínum með samanlagðri markatölu 6-2.

Það var þó Cremonese sem skoraði fyrsta markið eftir hálftíma leik. Glæsileg stungusending frá Matteo Bianchetti kom Martín Payero í gegn og hann kláraði færið af öryggi og gaf markverðinum engan möguleika.

Fjórum mínútum síðar tvöfaldaði Jamie Vardy forystuna með marki sem var nánast eins og það fyrra. Sending frá Federico Bonazzoli kom honum í gegnum þunga varnarlínu heimamanna og hann renndi boltanum af yfirvegun í netið.

Riccardo Orsolini minnkaði muninn fyrir Bologna úr vítaspyrnu rétt fyrir hálfleik en Vardy, sem kom frá Leicester City í sumar, endurheimti tveggja marka forystu Cremonese fimm mínútum eftir að síðari hálfleikur hófst þegar hann laumaði sér að nærstönginni og potaði boltanum í netið eftir fyrirgjöf frá hægri.

Þetta var gleðilegt kvöld fyrir Vardy, sem að eigin sögn varð fyrir innbroti í síðustu viku.

Breskir fjölmiðlar greindu frá því að þjófar hefðu brotist inn á heimili hans nálægt Garda-vatni og haft á brott með sér verðmæti fyrir 80.000 pund á meðan hann spilaði deildarleik í Róm.

Úrslitin voru einnig mikil lyftistöng fyrir félagið. Eftir að hafa unnið fyrstu tvo leiki tímabilsins hafði Cremonese aðeins unnið einn leik síðan þá. Úrslit mánudagsins lyftu liðinu upp um tvö sæti í það 11.

Bologna féll niður í sjötta sæti, á eftir Como á markatölu.

Þetta var í fyrsta sinn á tímabilinu sem lið Vincenzo Italiano fær á sig þrjú mörk í einum leik.

Hinn 38 ára gamli Vardy er kominn með fjögur mörk í níu deildarleikjum á sínu fyrsta tímabili í ítölsku deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×