Körfubolti

KR með yfir­burði í nýliðaslag og Haukar rétt sluppu á Króknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukar og KR unnu leiki sína í kvöld. Tinna Guðrún Alexandersdóttir skoraði 16 stig fyrir Haukaliðið.
Haukar og KR unnu leiki sína í kvöld. Tinna Guðrún Alexandersdóttir skoraði 16 stig fyrir Haukaliðið. vísir/Anton

KR og Haukar unnu góða sigra í Bónusdeild kvenna í körfubolta í kvöld en þá hófst tíunda umferð deildarinnar. 

Haukar virtust ætla að landa öruggum sigri á Króknum en heimakonur gáfust ekki upp og voru næstum því búnar að stela sigrinum í lokin.

KR hefur komið mörgum á óvart með góðri frammistöðu en Íslandsmeistarar Hauka hafa valdið talsverðum vonbrigðum. Þær unnu sinn annan leik í röð í kvöld en rétt sluppu með sigurinn.

KR-konur unnu ellefu stiga sigur á Ármanni í uppgjöri nýliðanna, 79-68. KR hefur unnið sjö af tíu leikjum sínum en Ármannsliðið hefur aðeins unnið einn leik.

KR vann átján stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 62-44, en Ármenningar lögðu stöðuna í lokaleikhlutanum.

Molly Kaiser skoraði 25 stig fyrir KR, Eve Braslis bætti við 17 stigum og 9 fráköstum en Rebekka Rut Steingrímsdóttir var með 13 stig. Nabaweeyah Mcgill skoraði 19 stig fyrir Ármann og Jónína Þórdís Karlsdóttir var með 16 stig.

Haukakonur unnu fjögurra stiga sigur á Tindastól á Sauðárkróki, 93-89, eftir að hafa verið 52-46 yfir í hálfleik.

Tindastóll stóð í Haukaliðinu framan af leik ekki síst fyrir stórleik Spánverjans Mörtu Hermida. Haukaliðið var hins vegar komið með góða forystu fyrir lokakaflann. 

Heimakonur gáfust ekki upp og voru nálægt því að vinna upp muninn í blálokin eftir átta stig í röð á skömmum tíma. 

Marta Hermida endaði leikinn með 42 stig, 8 fráköst og 10 stoðsendingar. Inga Sólveig Sigurðardóttir skoraði 16 stig fyrir Stólana og Oceane Kounkou var með 20 stig.

Amandine Justine Toi skoraði 22 stig fyrir Hauka og Krystal-Jade Freeman var með 20 stig og 14 fráköst.

Tinna Guðrún Alexandersdóttir skoraði 16 stig og Sólrún Inga Gísladóttir kom með 12 stig og fjóra þrista inn af bekknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×