Handbolti

Sáttur eftir góðan sigur: „Fannst allir leggja í púkkið“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Freyr Aronsson fór hvað eftir annað illa með varnarmenn KA.
Freyr Aronsson fór hvað eftir annað illa með varnarmenn KA. vísir/vilhelm

Hinn bráðefnilegi Freyr Aronsson lék vel þegar Haukar sigruðu KA, 42-38, í Olís-deild karla í kvöld. Hann var sáttur með sóknarframmistöðu Hauka í leiknum.

Haukar voru tveimur mörkum undir í hálfleik, 17-19, og KA hélt forskotinu framan af seinni hálfleik. En um miðbik hans stigu Haukar á bensíngjöfina og tóku fram úr KA-mönnum.

„Sóknarleikurinn var góður allan leikinn. Þetta var aðallega varnarleikurinn sem var lélegur í fyrri hálfleik og framan af þeim seinni. En svo fundum við baráttuna, allt það, spiluðum frábæran varnarleik undir lok seinni hálfleiks og kláruðum þetta með stæl,“ sagði Freyr við Vísi eftir leikinn á Ásvöllum.

Haukar töpuðu illa fyrir Aftureldingu í síðustu umferð og Freyr segir ánægjulegt að komast aftur á sigurbraut.

„Það er mjög gott og við verðum að halda áfram á þessari vegferð. Við þurfum bara að mæta í þessa leiki sem við eigum eftir fram að jólum eins og við gerðum síðustu fimmtán mínúturnar. Við þurfum að gera þetta fagmannlega,“ sagði Freyr.

Ekkert var yfir sóknarleik Hauka að kvarta enda skoruðu þeir 42 mörk en varnarleikur þeirra rauðklæddu hefur oft verið betri.

„Við spiluðum lélegan varnarleik nánast allan leikinn en sýndum síðan karakter undir lokin og verðum spila eins vörn og við gerðum síðustu fimmtán mínúturnar,“ sagði Freyr.

Hann skoraði átta mörk, gaf sex stoðsendingar og fiskaði þrjú vítaköst í leiknum. Freyr kvaðst ánægður með frammistöðu sína í kvöld.

„Já, ég er mjög sáttur en mér fannst allir leggja í púkkið og þetta var góður liðssigur,“ sagði Freyr að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×