Íslenski boltinn

Á­stæðan fyrir því að Þor­lákur hætti: „Ég var ekki hrifinn af þessu“

Sindri Sverrisson skrifar
Þorlákur Árnason er hættur eftir frábært tímabil með ÍBV.
Þorlákur Árnason er hættur eftir frábært tímabil með ÍBV. Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Ástæðan fyrir því að Þorlákur Árnason er hættur sem þjálfari karlaliðs ÍBV í fótbolta er sú að fyrirliði liðsins, Alex Freyr Hilmarsson, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri knattspyrnudeildarinnar.

Þetta staðfesti Þorlákur í samtali við Vísi í dag eftir að ÍBV tilkynnti óvænt í gærkvöld að hann hefði sagt upp störfum.

„Ég fór í gegnum allar þær aðstæður sem gætu komið upp og það er alveg sama hvaða hugmynd ég setti í huga mér, ég sá það ekki ganga,“ sagði Þorlákur.

Þorlákur hafði gert frábæra hluti með lið ÍBV á síðustu leiktíð en honum leist einfaldlega engan veginn á þá ráðstöfun að leikmaður liðsins yrði framkvæmdastjóri knattspyrnudeildarinnar, með öllu sem því fylgir.

„Þessi hugmynd kom upp og mér var bent á hana, og mín fyrstu viðbrögð voru mjög skýr. Ég var ekki hrifinn af þessu.

Svo heyrði ég að menn vildu reyna á þetta og þá bara bakkaði maður út úr þessu, og leyfði Alex og þeim sem ætla að ráða hann í vinnu að klára það. Það er ekki mitt að stoppa það. Félagið vill hámarka krafta einstaklings sem hefur frábæra sýn á fótbolta. Ég hef fullan skilning á því en þarf á sama tíma að hugsa um liðið sem ég er að þjálfa,“ sagði Þorlákur.

„Ég komst alltaf að sömu niðurstöðu, þó ég hefði viljað óska þess á köflum að ég væri öðruvísi og þætti þetta bara allt í lagi. Það verður einhver sem hefur trú á þessum breytingum að vera við stjórnvölinn,“ bætti hann við.

Nú er ljóst að Eyjamenn verða að hafa hraðar hendur við að finna nýjan þjálfara, enda undirbúningur fyrir næstu leiktíð hafinn. Sjálfur ætlar Þorlákur svo að taka sér tíma í að ákveða sitt næsta skref.

„Ég var búinn að lofa mér í frí með konunni og stend við það, og verð vonandi ekki bara í símanum. Í kjölfarið reyni ég svo að finna vinnu,“ sagði Þorlákur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×