Innlent

Skóla­meisturum brugðið og þeir krefjast fundar með ráð­herra

Árni Sæberg skrifar
Ársæll Guðmundsson er fráfarandi skólameistari Borgarholtsskóla.
Ársæll Guðmundsson er fráfarandi skólameistari Borgarholtsskóla. Stöð 2

Skólasamfélaginu er verulega brugðið yfir ákvörðun mennta- og barnamálaráðherra um að endurnýja ekki skipun Ársæls Guðmundssonar í embætti skólameistara Borgarholtsskóla.

Í ályktun skólameistara og stjórnar Skólameistarafélags Íslands þess efnis segir að Ársæll eigi að baki langan og vammlausan feril í starfi skólameistara og hafi notið trausts í starfi og virðingar samstarfsfólks í hópi stjórnenda í framhaldsskólum landsins.

Ákvörðunin feli í sér stefnubreytingu í skipunum í embætti skólameistara og sé ekki í neinu samræmi við það verklag sem hafi verið viðhaft. Samningar við skólameistara hafi verið endurnýjaðir svo lengi sem störf þeirra hafi verið talin fullnægjandi og engar málefnalegar athugasemdir liggi fyrir um að slíta þurfi starfssambandi.

Skólameistarar og stjórn Skólameistarafélags Íslands lýsi yfir verulegum áhyggjum af því hvaða skilaboð slík ákvörðun sendir til skólameistara og annarra stjórnenda í framhaldsskólum, hvað varði starfsöryggi, tjáningarfrelsi, traust og faglegt sjálfstæði.

„Í ljósi þessa og samhliða fyrirhuguðum breytingum á skipulagi og stjórnsýslu framhaldsskóla fer stjórn Skólameistarafélags Íslands fram á fund með mennta- og barnamálaráðherra og forsætisráðherra hið fyrsta. Á þeim fundi þarf að fara ítarlega yfir stöðu mála, fyrirhugaðar breytingar á framhaldsskólunum og stöðu stjórnenda við framhaldsskóla, þar á meðal starfsöryggi, málsmeðferð og væntingar stjórnvalda til hlutverks skólameistara.“


Tengdar fréttir

Vænir ráðherra um valdníðslu og óskar skýringa

Lögmaður Ársæls Guðmundssonar skólameistara Borgarholtsskóla sendi Guðmundi Inga Kristinssyni, mennta- og barnamálaráðherra, bréf í dag þar sem hann óskaði skýringa á ákvörðun ráðherra um að auglýsa starf hans. Hún beri vott um valdníðslu.

Koma Ársæli til varnar og telja ráðherra refsa honum fyrir skoðanir sínar

Fulltrúar úr fráfarandi skólanefnd Borgarholtskóla skora á mennta- og barnamálaráðherra að falla frá ákvörðun sinni um að framlengja ekki skipunartíma Ársæls Guðmundssonar skólameistara skólans. Fulltrúar sem setið hafa í skólanefndinni telja ákvörðun ráðherra órökstudda og án aðdraganda auk þess sem þau gruni að með ákvörðun sinni sé ráðherra að refsa Ársæli fyrir gagnrýni sem hann hafi haldið á lofti um áform stjórnvalda um málefni framhaldsskóla.

Tjáir sig um símtalið margfræga: „Hún var ekki í neinu jafnvægi“

„Inga hringdi í janúar, ég fékk bara símann frá skiptiborðinu, og hún var ekki í neinu jafnvægi; byrjaði strax að hella sér yfir mig, ákaflega reið og bókstaflega öskraði í símann að það væri búið að stela glænýjum Nike-skóm af barnabarninu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×