Viðskipti innlent

Kristín og Birta ráðnar til Origo

Atli Ísleifsson skrifar
Kristín Gestsdóttir og Birta Ísólfsdóttir.
Kristín Gestsdóttir og Birta Ísólfsdóttir. Origo

Birta Ísólfsdóttir hefur verið ráðin sem forstöðumaður markaðssviðs Origo og Kristín Gestsdóttir sem mannauðsstjóri fyrirtækisins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Origo. Með ráðningum sé ætlunin að styrkja enn frekar leiðtogateymi fyrirtækisins og styðja við áframhaldandi vöxt og umbreytingu.

Um Birtu segir að hún komi til Origo með víðtæka reynslu af markaðsmálum, vörumerkjastjórnun og stefnumótun. „Hún hefur leitt umfangsmikil umbreytingarverkefni og byggt upp heildstæðar markaðsstefnur. Hún starfaði síðast hjá Arctic Adventures og sat í framkvæmdarstjórn félagsins þar sem hún leiddi sölu- og markaðsmál og síðar uppbyggingu og upplifun á áfangastöðum.

Hjá Origo mun Birta leiða markaðsvið félagsins með áherslu á stefnumiðaða nálgun þar sem verður lögð áhersla á framsækna þjónustu fyrirtækisins og að skapa aukið virði fyrir viðskiptavininn,“ segir í tilkynningunni.

Kristín Gestsdóttir kemur svo frá Sýn þar sem hún hefur starfað síðastliðin þrettán ár, lengst af við mannauðsmál. Þar hafi hún meðal annars leitt ráðningar og fræðslu, sinnt alhliða mannauðsráðgjöf og stjórnendaþjálfun auk þess að hafa tekið þátt í ferlamótun og þróun verklags á sviði mannauðsmála.

Á undanförnum árum hefur hún jafnframt unnið þétt með forstjóra og framkvæmdastjórn félagsins og gegnt lykilhlutverki í stefnumótun, meðal annars við innleiðingu framtíðarstefnu og verkefnastýringu á stórum umbreytingarverkefnum.

Um Origo segir að það sé rótgróið og leiðandi þekkingarfyrirtæki í upplýsingatækni sem hjálpi fyrirtækjum að halda forskoti í síbreytilegu umhverfi tækninnar. Félagið þjónustar viðskiptavini með ráðgjöf, nýsköpun og tæknilausnum sem einfalda flókin ferli, bæta þjónustu og skapa aukið virði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×