Körfubolti

Tinda­stóll með fellu gegn Keilu í Eist­landi

Aron Guðmundsson skrifar
Adomas Drungilas var öflugur fyrir Tindastól í kvöld
Adomas Drungilas var öflugur fyrir Tindastól í kvöld Vísir/Hulda Margrét

Karla­lið Tindastóls í körfu­bolta vann yfir­burða­sigur gegn Keila frá Eist­landi í ENBL deildinni í körfu­bolta í dag. Lokatölur í Eist­landi urðu 106-80 Tindastól í vil, tuttugu og sex stiga sigur Sauðkrækinga. Fella.

Spilað var í Keila Tervi­skekeskus höllinni í Eist­landi en um var að ræða síðasta Evrópu­leik Tindastóls á þessu ári og sat liðið í 9.sæti fyrir hann eftir þrjá sigra og eitt tap. And­stæðingar kvöldsins í liði Keilu voru hins vegar án sigurs í deildinni til þessa.

Stólarnir voru alltaf skrefi á undan í fyrri hálf­leik. Eftir fremur jafnan fyrsta leik­hluta, sem endaði með fjögurra stiga mun Tindastól í vil, 24-20, tókst læri­sveinum Arnars Guðjóns­sonar að slíta sig lengra frá Keila í öðrum leik­hluta og fór svo að ellefu stig skildu liðin að eftir fyrri hálf­leikinn, staðan 50-39.

Stólarnir, sem voru vel studdir áfram af fjöl­mennri stuðnings­manna­sveit frá Sauðárkróki, að leika virki­lega vel á úti­velli á þeirri stundu en Adomas Drungi­las var frábær í fyrri hálf­leiknum, setti niður níu stig og tók niður fjögur fráköst ásamt því að stela einum bolta og verja einn.

Yfir­burðir Tindastóls héldu síðan áfram í seinni hálf­leik og liðinu tókst að byggja ofan á for­skot sitt. Svo fór að Sauðkrækingar fóru af hólmi með tuttugu og sex stiga sigur, 106-80 og tvö stig heim til Sauðárkróks.

Ivan Gavrilovic var stigahæstur í liði Tindastóls í kvöld með tuttugu stig á meðan að Adomas Drungilas átti góðan leik á sama tíma með sextán stig og tíu fráköst. 

Tindastóll er nú búið að hala inn níu stigum og jafnar topp­lið Voluntari að stigum með jafn marga leiki spilaða.

Sex­tán efstu lið deildarinnar af tuttugu og sex að deildar­keppninni lokinni munu tryggja sér sæti í sex­tán liða úr­slitum þar sem tekur við útsláttar­fyrir­komu­lag.

Næsti leikur Tindastóls í keppninni er gegn Pris­htina þann 6. janúar næst­komandi, þar á eftir mætir liðið Dina­mo þann 20. janúar áður en deildar­keppni liðsins lýkur gegn Brussels þann 10. febrúar. Milli þessara leikja er Tindastóll svo á fullu í Bónus deildinni hér heima.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×