Lífið

35 lönd taka þátt í Euro­vision á næsta ári

Atli Ísleifsson skrifar
Austurríski söngvarinn JJ bar sigur úr býtum í Eurovision sem fram fór í Basel í Sviss í maí síðastliðinn.
Austurríski söngvarinn JJ bar sigur úr býtum í Eurovision sem fram fór í Basel í Sviss í maí síðastliðinn. EPA

Þrjátíu og fimm lönd verða með fulltrúa í Eurovision sem fram fer í Vín í Austurríki í maí á næsta ári. Það eru tveimur færri en í Basel í Sviss fyrr á þessu ári.

Ríkisútvarpið greindi frá því í síðustu viku að Ísland myndi ekki taka þátt í Eurovision í maí. Ákvörðunin hafi verið tekin á dagskrárlegum forsendum þar sem ljóst væri miðað við opinbera umræðu hér á landi og viðbrögð við ákvörðun EBU um að leyfa þátttöku Ísraels að hvorki mun ríkja gleði né friður um þátttöku RÚV í Eurovision.

Áður höfðu Hollendingar, Spánverjar, Írar og Slóvenar tilkynnt að þeir myndu ekki taka þátt vegna þátttöku Ísraela.

Þó að fimm lönd hafi tilkynnt um sniðgöngu eru þátttökulöndin árið 2026 einungis tveimur færri en á síðasta ári. Ástæða þess að þrjú lönd, sem ekki tóku þátt í Sviss fyrr á þessu ári, hafa tilkynnt að þau muni nú snúa aftur til leiks. Um er að ræða Rúmena, Búlgara og Moldóva. Búlgaría tók síðast þátt fyrir þremur árum, Rúmenía fyrir tveimur árum og Moldóva fyrir rúmu ári.

Eurovision fagnar sjötíu ára afmæli í maí á næsta ári en keppnin mun fara fram í Vín dagana 12. til 16. maí. Þetta er í þriðja sinn sem Eurovision fer fram í austurrísku höfuðborginni en áður fór keppnin þar fram 1967 og svo aftur 2015.

Þau ríki sem munu taka þátt að þessu sinni eru Albanía, Armenía, Ástralía, Austurríki, Aserbaídsjan, Belgía, Búlgaría, Króatía, Kýpur, Tékkland, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Georgía, Þýskaland, Grikkland, Ísrael, Ítalía, Lettland, Litáen, Lúxemborg, Malta, Moldóva, Svartfjallaland, Rúmenía, Noregur, Pólland, Portúgal, San Marínó, Serbía, Svíþjóð, Sviss, Úkraína og Bretland.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.