Tíska og hönnun

Ís­lenskt La(m)bubu úr gæru, soðnu kindahorni og fiskaugum

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Ferlið við gerð Lambubu-dýrsins var langt og strembið og þurfti meðal annars að verka fiskaugu og sjóða þau í mjólk, sjóða kindahorn og tálga þau til og verka sauðagæru.
Ferlið við gerð Lambubu-dýrsins var langt og strembið og þurfti meðal annars að verka fiskaugu og sjóða þau í mjólk, sjóða kindahorn og tálga þau til og verka sauðagæru.

Vöruhönnuðurnir Bríet Sigtryggsdóttir og Erla Lind Guðmundsdóttir veltu því fyrir sér hvernig Íslendingar myndu framleiða Labubu ef skorið yrði á tengsl landsins við umheiminn. Við tók langt ferli þar sem þær smíðuðu íslenskt lambubu úr kindahorni, ull, heststagli, fiskaugum og roði.

Loðnu kínversku tuskudýrin Labubu eru sannarlega eitt af því sem einkenndi árið 2025. Kínverski leikfangarisinn Pop Mart hagnaðist gríðarlega og úr varð heill eftirlíkingaiðnaður ódýrari Lafufu-dýra (sem reyndust vera óæskileg fyrir börn). 

Íslendingar fóru ekki varhluta af æðinu og varð tuskudýrið að stöðutákni hjá íslenskum grunnskólabörnum og ginnkeyptum neyslugrísum. Aðrir hristu hausinn, töldu sig of góða fyrir svona fjöldaframleitt kínverskt prjál og skran.

Nú berast hins vegar óvænt tíðindi, komin er íslensk útgáfa af tuskudýrinu alræmda, svokallað Lambubu. Íslenski bróðirinn er ekki fjöldaframleiddur eins og sá kínverski heldur er um að ræða alvöru handverk úr íslenskum afurðum.

Dýrmætur deyjandi menningararfur

Lambubu fæddist í áfanga hjá nemendum á þriðja ári í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands. Bríet og Erla Lind áttu þar að vinna með þemað Ísland án tengingar við umheiminn út frá dystópísku bókinni Eyland eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur.

Bríet og Erla verka kjöt.

„Við rannsökuðum hvað það myndi þýða ef við myndum missa samband við restina af heiminum. Við tókum fyrir hliðarafurðir úr kjöt- og fiskframleiðslu, afurðir sem eru oft ekki nýttar hér á landi eða sendar úr landi til vinnslu,“ segir Erla í samtali við Vísi.

„Þekking á verkun þessara efna virðist vera deyjandi og við teljum mikilvægt að varðveita þennan dýrmæta menningararf sem felst í þekkingunni.“

Þær stöllur veltu fyrir sér gildi efnis, uppruna og handverka þegar fjöldaframleiðsla næði ekki til landsins.

„Við fórum um víðan völl og kynntumst frábæru fólki sem vinnur með þessar afurðir og var tilbúið að deila með okkur þekkingu sinni. Í ferlinu verkuðum við fiska, suðum fiskaugu í mjólk til að gera perlur, verkuðum sauðfjárskinn, hestaskinn, tögl af hestum og kindahorn til að kynnast efniviðnum og átta okkur á því hvað við gætum gert til að finna efnunum nýtt samhengi,“ segir Erla.

Kindahorn eftir að búið er að skera þau af höfði hræsins.

Pólýester og plast eða kindur, hestar og fiskar

Þær fóru að velta fyrir sér virði handverks og náttúrulegra, staðbundinna efna og spegluðu í neysluhyggju nútímasamfélagsins. 

„Eitt helsta tákn neyslumenningar í dag er að okkar mati Labubu. Labubu er ákveðið stöðutákn og í fréttum hefur verið fjallað um að sumir grunnskólar landsins hafi þurft að banna Labubu þar sem börn eru að metast hver á alvöru og hver á eftirlíkingar,“ segir Erla.

„Labubu er fjöldaframleitt og gert úr plasti og pólýester. Eftirlíkingarnar, kallaðar Lafufu, eru úr enn verra plasti sem hefur verið varað við að innihaldi eiturefni,“ segir Erla.

„Við ákváðum að gera eftirlíkingu af Labubu einungis úr hliðarafurðum úr kjöt- og fiskframleiðslu til að vonandi varpa fram hugvekju um neyslumenningu, efnisval og virði hlutanna sem við kjósum að umkringja okkur með.“

Hægra megin má sjá kínverskt Labubu en vinstri megin má sjá íslenskt Lambubu.

Hundrað prósent íslenskt tuskudýr

Úr varð Lambubu sem sameinar hefðbundið handverk og náttúruleg hráefni og setur þetta tákn neyslumenningar í nýtt samhengi. Lambubu er hundrað prósent úr íslenskum dýraafurðum.

„Andlitið er úr soðnu kindahorni sem var beygt með pressumóti og skorið út í, smáatriðin eru máluð með rauðrófu. Aðferðina lærðum við hjá Elínu Kjartansdóttur, frábærri handverkskonu fyrir norðan, sem gaf sér tíma til að sýna okkur verkstæðið sitt og deila með okkur sinni visku,“ segir Erla.

Eftir að búið er að sjóða kindahornin losna þau í sundur.
Andlitið eftir útskurð.

Augun eru úr fiskaugum sem eru soðin í mjólk sem myndar harða perlu. Uppskriftina að fiskiaugnaperlum fengu þær úr indverskri alkemíu og nutu þær leiðsagnar hönnuðarins Johönnu Seeleman.

„Áslaug Ragnarsdóttir Thorarensen sem á fiskvinnsluna Djúpið út á Granda var ómetanleg í ferlinu, alltaf reiðubúin að aðstoða okkur og gefa okkur efnivið,“ segir Erla.

Stelpurnar verkuðu slatta af fiskaugum.
Augu á leið í mjólkurbað.
Fiskaugun eftir að búið var að sjóða þau upp úr mjólk.

Hendur, fætur og lyklakippuhring fengu þær með því að tálga og skera út kindahorn; lyklakippubandið fléttuðu þær úr rauðrófulituðum hárum af heststagli og hálsskrautið var unnið úr fiskhreistri.

„Inni í dýrinu er þæfð ull og utan á er gæra sem við fengum frá Feldi og við lituðum með rauðrófu. Við gerðum tilraunir að súta sjálfar eftir að hafa fengið góð ráð frá Lene Zachariassen á Hjalteyri en gafst ekki tími til að fullklára það þannig Valgerður Birna hjá Feldi verkstæði var svo góð að láta okkur fá afgangs lambaskinnsgæru,“ segir hún.

Skrapa þurfti roðið fyrir hreistrið.
Greiða þurfti taglið eftir að búið var að þrífa það.
Sauðagæran í baði.

Á að selja Lambubu?

Ferlið hefur verið tímafrekt og handverkið greinilega vandað. Á sama tíma er hugmyndin með tuskudýrinu að gagnrýna neyslumenningu. Því veltir maður því fyrir sér hvort framleiðendurnir hyggist selja sitt eina eintak af Lambubuinu.

Lambubu-beinagrind án ytra byrðisins.

„Við erum opnar fyrir því en á sama tíma er ákveðin þversögn í því að selja hann. Við sjáum hann ekki endilega sem söluvöru þar sem okkur finnst hann frekar standa sem hugvekja,“ segir Erla.

Þá er næsta spurning hvort þær hafi átt Labubu fyrir. Erla segir þær hafa reddað sér Labubu í ferlinu til að gera eftirlíkinguna sem nákvæmasta.

„Labubuinn er í poka á gólfinu í stúdíóinu okkar en Lambubu hangir í sýningarkassa. Það sýnir kannski hvor er meira virði í okkar augum.“

Maður upplifir vöruhönnuðinn smá milli steins og sleggju, hann er listamaður en er líka tannhjól í vél neysluhyggjunnar. Því leikur blaðamanni forvitni á að vita hvernig sé að takast á við það.

Lambubu í sýningakassa.

„Það er smá erfitt að takast á við þá þversögn. Það sem við lærum í vöruhönnun er að hafa alltaf ástæðu og rök fyrir því sem við gerum sem er ótrúlega dýrmætt í samfélagi þar sem fjöldaframleiðsla og neysluhyggja er svona ríkjandi,“ segir Erla.

„Maður þarf held ég að fara milliveginn í þessu öllu saman, ekki bara framleiða söluvörur en svo verðum við líka að þéna pening til að lifa af,“ bætir hún við.

Að sögn Erlu er vöruhönnun oft á tíðum rangtúlkuð faggrein. Sömuleiðis sé erfitt að setja einn hatt yfir vöruhönnuði, fólki kjósi að einbeita sér að svo gjörólíkum hlutum. Nemendur í LHÍ læri mjög fjölbreyttar aðferðir á ýmsum miðlum.

„Ég myndi alls ekki segja að vöruhönnun snúist um það einungis að búa til vörur. Svo er orðið „vara“ líka frekar flókið konsept. Gróskan í vöruhönnun á Íslandi er ótrúlega mikil og ég vona að fólk og fyrirtæki átti sig á hvaða kostir fylgja því að ráða inn vöruhönnuði því ég myndi segja að við séum algjörir þúsundþjalasmiðir.“

Brot úr ferlinu má sjá hér að neðan. Lesendur eru þó varaðir við myndefninu þar sem sést í ýmiss konar dýrahræ, þar á meðal kindahaus þar sem verið er að saga af honum hornið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.