Innlent

Engin breyting á trúfélags­skráningu lands­manna

Kjartan Kjartansson skrifar
Blæðing Þjóðkirkjunnar undanfarin ár virðist hafa stöðvast eða að minnsta kosti hægt á henni miðað við nýjar tölur Þjóðskrár.
Blæðing Þjóðkirkjunnar undanfarin ár virðist hafa stöðvast eða að minnsta kosti hægt á henni miðað við nýjar tölur Þjóðskrár. Vísir/Vilhelm

Hlutfall landsmanna í trú- og lífsskoðunarfélögum og þeirra sem standa utan þeirra tók svo gott sem engum breytingum á milli ára. Örlítið hærra hlutfall tilgreinir nú ekki stöðu sína en í fyrra og hlutfall þeirra sem er í Þjóðkirkjunni lækkar lítillega.

Sem fyrr eru hlutfallslega langflestir landsmenn skráðir í Þjóðkirkjuna. Söfnuður hennar taldi 224.056 manns 1. desember, alls 54,5 prósent landsmanna samkvæmt tölum Þjóðskrár. Sóknargjöld sem ríkið styrkir trúfélög með eru greidd út í samræmi við skráða félaga þann dag.

Hlutfall þeirra sem tilheyra Þjóðkirkjunni lækkar um tæpt prósentustig á milli ára. Það hefur farið hratt lækkandi síðustu sex árin en hlutfallið var 65,2 prósent árið 2019.

Hátt í 95 þúsund manns eru með ótilgreinda skráningu en það þýðir að þeir hafa ekki tekið afstöðu til skráningar í trú- eða lífsskoðunarfélög. Það eru þrettán prósent landsmanna og hækkar hlutfallið um tæpt prósentustig á milli ára.

Búddistum fjölgaði hlutfallslega mest

Óveruleg breyting er á hlutfalli þeirra sem standa utan trúfélaga og þeirra sem tilheyra öðrum trú- og lífsskoðunarfélögum en Þjóðkirkjunni. Hátt í 31 þúsund manns, 7,5 prósent landsmanna, standa utan slíkra félaga. Það er 0,5 prósentustigum hærra en í fyrra.

Fimmtán prósent tilheyra öðrum trú- og lífsskoðunarfélögum en Þjóðkirkjunni. Fjölmennast þeirra er kaþólska kirkjan með 15.917 meðlimi en Fríkirkjan í Reykjavík er þriðja fjölmennasta trúfélagið með 10.053 skráða félaga.

Mest fjölgaði félögum í kaþólsku kirkjunni á milli ára, um 369 manns. Hlutfallslega mesta fjölgunin var í Wat Phra búddistasamtökunum en félögum í þeim fjölgaði um fjórðung á milli ára. Nú eru 163 skráðir í Wat Phra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×