Skoðun

Sköpum öflugt, hafsækið at­vinnulíf á við­skipta­legum for­sendum!

Gunnar Tryggvason skrifar

Af grein sem birtist á Vísi þann 12. desember má skilja að Faxaflóahafnir sf. hafi á einhvern hátt verið þátttakendur í eða ábyrgar fyrir samráði skipafélaganna í Sundahöfn á árunum 2008-2013. Það er rangt, enda koma hafnir landsins að engu nálægt viðskiptum skipafélaga við farmeigendur.

Greinin kemur í kjölfar viðtals við bæjarstjóra Ölfuss á Bylgjunni þar sem hann lýsir óánægju vegna ætlunar ríkisisins að draga úr ríkisstyrkjum til þeirra hafna sem rétt eiga á slíku framlagi úr sjóðum skattgreiðenda.

Hafnarbótasjóður – leikreglur sem þarf að skýra

Hafnarbótasjóður styrkir framkvæmdir sem ekki eru taldar bera sig á hreinum viðskiptalegum forsendum og er sjóðurinn fjármagnaður skv. fjárlögum hvers árs. Rekstur hafna á Íslandi er samkeppnisrekstur og hafnalög eru skýr um að „óheimilt (sé) að styrkja með framlagi úr ríkissjóði framkvæmdir sem geta raskað samkeppni milli hafna“. Fjögur hafnafyrirtæki í eigu sveitarfélaga eiga ekki rétt á framlagi úr sjóðnum og byggja innviði sína alfarið fyrir sjálfsaflafé. Þeirra á meðal eru Faxaflóahafnir sf., enda afkoma félagsins sterk; þess gætt að ekki sé fjárfest umfram sýnilega þörf og sjálfsaflatekjur beri viðkomandi fjárfestingu.

Markmið hafnarbótasjóðs er göfugt; að tryggja strandbyggðum landsins sem síðri möguleika hafa á að bera sig á viðskiptalegum forsendum, örugga tengingu við sjóinn svo hafsækið atvinnulíf fái skotið þar rótum. Hins vegar hefur við úthlutun úr sjóðnum skort á gagnsæi og er hér með skorað á Innviðaráðuneytið og Vegagerðina sem fara með rekstur hans, að bæta þar úr. Mikilvægt er að það takmarkaða fjármagn sem ríkið setur í sjóðinn rati til þeirra verkefna sem styðja markmið hans.

Þorlákshöfn á framtíðina fyrir sér

Í Faxaflóahöfnum stunda þrjú skipafélög reglulegar siglingar með vörur og í Þorlákshöfn tvö. Farmflytjandi á sv-horni landsins getur því sótt tilboð til fimm skipafélaga ætli hann að flytja farm til eða frá N-Evrópu. Það er mun betri staða en var á ofangreindur tímabili. Staðsetning Þorlákshafnar er á margan hátt hentug fyrir skipaflutninga enda siglingaleiðin til Evrópu nokkuð styttri en frá höfnum við Faxaflóa. Enginn vafi er á að Þorlákshöfn á framtíðina fyrir sér á viðskiptalegum forsendum.

Höfundur er hafnarstjóri Faxaflóahafna

.Slóðir:

Ríkisstjórn grefur undan samkeppni, þú munt borga meira - Vísir

https://www.visir.is/k/e2defe80-a37c-4a5f-8b0c-0772f04ec4fd-1765354905564/fullyrda-ad-rikisstjornin-yti-undir-samkeppnishindranir




Skoðun

Sjá meira


×