Erlent

Allra augu á Ís­landi og At­lants­hafinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Ein af flugferðunum sem þúsundir fylgdust með í dag.
Ein af flugferðunum sem þúsundir fylgdust með í dag. Flightradar24

Flugferðir sem tengjast aðgerðum Bandaríkjamanna á Atlantshafi í dag og flugferðir milli Bretlands og Íslands hafa verið mikið milli tannanna, ef svo má segja, á fólki á internetinu í dag. Mögulegt er að Bandaríkjamenn séu að flytja hergögn og hermenn frá Bretlandi aftur til Bandaríkjanna eftir aðgerðirnar.

Þegar þetta er skrifað, um klukkan hálf þrjú, eru flestar af tíu mest vöktuðu flugferðunum á vefnum Flightradar, þar sem hægt er að fylgjast með flestum flugferðum heimsins, flugferðir sem snúa að Íslandi og/eða aðgerðum Bandaríkjamanna á Atlantshafinu í dag.

Nokkuð flökt hefur verið á vinsældum flugferðanna en þrjár af flugvélunum tíu eru sérstakar eftirlitsflugvélar sem eru mikið notaðar af bandarískum sérsveitum. Flugvélar þessar eru af gerðinni Pilatus U-28A Draco og er verið að fljúga þeim frá Wick í Bretlandi til Keflavíkur og verður þeim væntanlega flogið áfram til Bandaríkjanna.

Einnig er um að ræða herflugvélar og einkaþotur í eigu herafla Bandaríkjanna og hefur mikið verið fylgst með þeim á vef Flightradar í dag.

Um síðustu helgi og á mánudaginn fylgdust áhugamenn og sérfræðingar með flugferðum yfir Atlantshafið þar sem verið var að fljúga frá herstöð fyrir sérsveitarmenn í Bandaríkjunum til Bretlands.

Þessum flutningum fylgdu þyrlur og eftirlitsflugvélar og þótti það strax benda til þess að Bandaríkjamenn ætluðu sér að gera áhlaup um borð í skuggaskipið Marinera, sem kallaðist áður Bella 1.

Til stóð að stöðva skipið undan ströndum Venesúela í síðasta mánuði en það hefur verið beitt refsiaðgerðum vegna brota á viðskiptaþvingunum Bandaríkjanna gagnvart Íran og Rússlandi.

Bandarískir hermenn gerðu svo áhlaup um borð í skipið suður af Íslandi, innan íslenskrar efnahagslögsögu, í dag.

Mikill áhugi hefur verið á þessum aðgerðum í dag. Yfirmaður varnarmálaumfjöllunar hjá Economist lýsti eltingaleiknum við skuggaskipið í morgun sem „OJ Simpson eltingaleik Norður-Atlantshafsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×