Íslenski boltinn

Feginn að vera fluttur heim úr fá­tækra­hverfinu í Kína

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Elías Már er nýjasti leikmaður Víkings í Bestu deild karla.
Elías Már er nýjasti leikmaður Víkings í Bestu deild karla. vikingur.is

Elías Már Ómarsson varð fljótt þreyttur á því að vera vakandi á nóttunni í kínversku fátækrahverfi og samdi við Víking í von um að vinna fyrsta meistaratitilinn á ferlinum.

Eftir rúman áratug í atvinnumennsku erlendis, með viðkomu í Noregi, Svíþjóð, Frakklandi, lengst af í Hollandi og síðast í Kína, vildi Elías Már komast aftur heim.

„Þetta er skemmtileg lífsreynsla, þannig séð, en ég var ekki spenntur að fara aftur þangað sem ég var. Ég var bara einn 24/7 þarna og mikill tímamismunur á Íslandi og Kína, þannig að maður var svolítið mikið vakandi á næturnar og sofandi á daginn til að geta haft samband við fjölskylduna. Það var ekki spennandi lífsstíll og ég var í fátækrahverfi þar sem var ekkert mikið um að vera. Þetta var alls ekki spennandi líf, fyrir utan það að spila fótbolta. Ég er þakklátur að vera kominn heim til fjölskyldunnar“ segir Elías.

Fjölskyldan býr í Keflavík og sögusagnir voru á sveimi um að hann myndi semja við uppeldisfélagið, sem mun spila í Bestu deildinni næsta sumar, en Elías ætlar að vinna titla með liði Víkings.

„Það voru nokkur lið sem sýndu áhuga, Keflavík þar á meðal. Uppeldisfélagið og ég hef miklar tilfinningar til þeirra, það var erfitt að velja þá ekki en mér fannst ég eiga mikið eftir og finnst meiri möguleiki á því að vinna titla hjá Víkingum“ segir Keflvíkingurinn.

Elías er fjölhæfur framherji, snöggur og getur líka spilað á kantinum.

„Ég kann að spila sem fremsti maður og aðrar stöður, tíuna eða kantinn. Ég get leyst margar stöður og er bara kominn til að gera mitt allra besta fyrir liðið“ segir Elías, sem á sér draum um að vinna fyrsta titilinn á ferlinum.

Rætt var við Elías Má í Sportpakka Sýnar í gærkvöldi. Innslagið má sjá í spilaranum að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×