Íslenski boltinn

Snýr aftur til Ís­lands og tekur við ÍBV

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Serbneski knattspyrnuþjálfarinn Aleksandar Linta er mættur aftur til Íslands.
Serbneski knattspyrnuþjálfarinn Aleksandar Linta er mættur aftur til Íslands. ibvsport.is/Hafliði Breiðfjörð

Þjálfaraleit Eyjamanna er á enda en serbneski knattspyrnuþjálfarinn Aleksandar Linta hefur skrifað undir þriggja ára samning við knattspyrnudeild ÍBV og stýrir Eyjaliðinu í Bestu deild karla í sumar.

Eyjamenn staðfesta þjálfararáðninguna á miðlum sínum í dag.

Kristján Guðmundsson framlengdi við ÍBV síðasta haust en hætti síðan óvænt með liðið þegar einn leikmaður hans, fyrirliðinn Alex Freyr Hilmarsson, var ráðinn yfirmaður hans sem nýr framkvæmdastjóri knattspyrnudeildarinnar.

Þjálfaraleit Eyjamanna hefur staðið yfir í nokkra mánuði en þeir hafa nú samið við gamlan Íslandsvin sem lék lengi hér á landi og hóf þjálfaraferil sinn líka á Íslandi.

Linta, sem er fimmtugur, á langan leikmannaferil á Íslandi þar sem hann lék í öllum fjórum deildum landsins á sínum tíma sem leikmaður frá árinu 1997 til 2013. Flesta leikina lék hann í 1. deild en þá einnig þrjú tímabil í efstu deild með ÍA og Þór Akureyri.

Fyrsta reynsla Linta af Íslandi var þegar hann gekk til liðs við Íslandsmeistara Skagamanna sumarið 1997 en þjálfari ÍA var þá landi hans Ivan Golac.

Linta hóf þjálfaraferil sinn á Grundarfirði árið 2012 en hann var þjálfari þar í tvö ár. Hann var aðstoðarþjálfari hjá slóvenska félaginu NK Olimpija Ljubljana og einnig aðalþjálfari þar í stuttan tíma 2018 þar sem Olimpija komst örugglega áfram í undankeppni Evrópudeildarinnar.

Leið Linta lá síðan til Kasakstan þar sem hann var aðstoðarþjálfari hjá fimmföldum landsmeisturum FC Irtysh Pavlodar, eftir það fékk hann starf sem aðalþjálfari hjá FK Radnicki 1923 en þar var hann frá 2020 til 2021. Árið 2021 tók hann við FK Vozdovac en nú yfirgefur hann starf í unglingaliðum hjá Rauðu stjörnunni til að taka við ÍBV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×