Körfubolti

Harden upp fyrir Shaq á stigalistanum: „Mikill heiður“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aðeins átta leikmenn í sögu NBA hafa skorað fleiri stig en James Harden.
Aðeins átta leikmenn í sögu NBA hafa skorað fleiri stig en James Harden. getty/Ronald Martinez

James Harden er orðinn níundi stigahæsti leikmaður í sögu NBA-deildarinnar í körfubolta. Hann tók fram úr Shaquille O'Neal í nótt.

Harden stökk upp í 9. sæti á listanum yfir stigahæstu leikmenn NBA þegar hann setti niður þriggja stiga skot snemma í seinni hálfleik í leik Los Angeles Clippers og Charlotte Hornets í nótt.

„Shaquille O'Neal sem ég ólst upp við að horfa á hér í Los Angeles,“ sagði Harden í leikslok. „Hann og Kobe [Bryant] að gera sitt, vinna nokkra titla. Shaq er mesti yfirburðar stóri maður í sögu leiksins. Þetta er mikill heiður og til vitnis um allt það sem ég hef lagt á mig.“ 

Hinn 36 ára Harden skoraði 32 stig í leiknum sem Clippers vann, 117-109. Hann gaf einnig tíu stoðsendingar fyrir Clippers sem hefur unnið þrjá leiki í röð. Liðið er í 11. sæti Vesturdeildarinnar.

Harden hefur alls skorað 28.614 stig á sautján tímabilum í NBA. Auk Clippers hefur hann leikið með Oklahoma City Thunder, Houston Rockets, Brooklyn Nets og Philadelphia 76ers. Harden hefur þrisvar sinnum orðið stigakóngur NBA.

Auk þess að vera í 9. sætinu á stigalista NBA er Harden tólfti stoðsendingahæsti leikmaður í sögu deildarinnar (8.604 stoðsendingar) og einungis Stephen Curry hefur skorað fleiri þriggja stiga körfur en Harden (3.291).

Stigahæstir í sögu NBA

  1. LeBron James - 42.623 stig
  2. Kareem Abdul-Jabbar - 38.387
  3. Karl Malone - 36.928
  4. Kobe Bryant - 33.643
  5. Michael Jordan - 32.292
  6. Dirk Nowitzki - 31.560
  7. Kevin Durant - 31.458
  8. Wilt Chamberlain - 31.419
  9. James Harden - 28.614
  10. Shaquille O'Neal - 28.596

Á þessu tímabili er Harden með 25,6 stig, 4,8 fráköst og 7,9 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann er í 16. sæti yfir stigahæstu leikmenn deildarinnar og 6. sætinu yfir þá stoðsendingahæstu.

Oklahoma valdi Harden með þriðja valrétti í nýliðavalinu 2009. Hann fór með liðinu í úrslit NBA þremur árum seinna en var síðan skipt til Houston. Harden var valinn verðmætasti leikmaður NBA 2018 og besti sjötti maðurinn 2012. Hann hefur spilað í ellefu Stjörnuleikjum á ferlinum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×