Handbolti

„Ef ég hitti Dag þá mun ég knúsa hann“

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Snorri Steinn á æfingu í Malmö Arena í gær.
Snorri Steinn á æfingu í Malmö Arena í gær. vísir/vilhelm

Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari var silkislakur er hann hitti fjölmiðla á hóteli landsliðsins í Malmö í dag. Ekkert stress og einbeiting á leiknum við Króatíu á morgun.

„Maður undirbýr liðið alltaf vel. Það á enn eftir að taka tvo fundi í viðbót. Svo setjum við upp plan og svo þarf að spila vel og ná upp okkar leik,“ segir Snorri Steinn en hann segir ekki mikinn mun á króatísku liðinu og því sem skellti Íslandi á HM fyrir ári síðan.

Klippa: Snorri er ekki að forðast Dag

„Það eru einhverjar mannabreytingar og maður sér alltaf eitthvað nýtt. Stóra myndin er samt ekkert svakalega breytt. Þetta er sterkt lið og margt sem við þurfum að hafa á hreinu.“

Króatar sáu til þess á HM í fyrra að Ísland komst ekki áfram. Eini tapleikur Íslands en nóg til þess að okkar menn sátu eftir með sárt ennið.

„Vonandi lærðum við eitthvað af þeim leik. Þetta er svipað og gegn Ungverjum. Ég er ekki að dvelja of mikið við það sem gerðist. Auðvitað kíkti ég á leikinn fyrir ári og reyndi að sjá hvað var hægt að gera betur. Það var vonandi lærdómur. Við teljum okkur geta gert betur og vonandi náum við að framkvæma það,“ segir Snorri en hann fær væntanlega stórskyttuna Þorstein Leó Gunnarsson inn í liðið á morgun en hann æfði loksins með liðinu í gær.

Þjálfari Króata er auðvitað Dagur Sigurðsson. Fyrrum félagi Snorra með íslenska landsliðinu og svo eru þeir báðir Valsarar og góðir félagar. Þeir eru á sama hóteli en eru þeir að hittast eða forðast hvorn annan fyrir leikinn?

„Við erum ekki búnir að hittast. Ég er ekki að reyna að forðast hann en ég veit ekki hvað hann er að gera. Ef ég hitti hann þá knúsa ég hann sko. Ég er alveg klár í kaffi með honum,“ sagði Snorri og hló dátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×