Lífið

For­ritara stærðfræðileiks tekið eins og rokkstjörnu

Stefán Árni Pálsson skrifar
Fjölskylda á flakki.
Fjölskylda á flakki.

Íris E. Gísladóttir og Mathieu Grettir Skúlason eru liðlega þrítug og dvelja þessi misserin í París ásamt börnum sínum tveimur, þeim Evu 13 ára og Eric 4 ára. Ekki bara af því að þeim finnst frönsku vínin svo ljúffeng eða croissanturnar svo kræsilegar heldur var það samdóma niðurstaða fjölskyldunnar að í París gætu þau lifað betra lífi sem frumkvöðlar en á Íslandi.

Þau stofnuðu fyrir nokkrum árum sprotafyrirtækið Evolytes utan um stærðfræðileik sem þau hafa nú innleitt víða í íslenskum grunnskólum og eru að breiða leikinn út um heiminn. Stærstu vaxtarmarkaðir þeirra eru á Indlandi og í Suður-Ameríku og þess vegna ákváðu þau að hreiðra um sig í París, nálægt Orly og Charles de Gaulle-flugvöllunum til að einfalda linnulítið flakk þeirra á milli heimsálfa og stytta þannig fjarveru frá börnunum tveimur. Eða, svo þau geti tekið börnin með á flakkið án þess kostnaðar sem fylgir því að borga fyrst fluglegg frá Íslandi til meginlandsins.

Forritar leikinn

Lóa Pind Aldísardóttir og Ívar Kristján Ívarsson myndatökumaður heimsóttu þessa öflugu fjölskyldu í daglega lífið þeirra í París í haust og svo aftur þegar Íris og Mathieu fóru í vinnuferð til Chile í desember í skóla þar sem stærðfræðileikurinn Evolytes hefur verið í prufukeyrslu um hríð. Þar sáu þau hvernig uppnám varð meðal nemendanna þegar Mathieu - sem forritar leikinn - mætti inn í bekkinn. Honum var tekið eins og rokkstjörnu. Aðdáendur umkringdu hann og fengu eiginhandaráritanir. Heimsóknir Lóu og Ívars til Parísar og Chile er í 2. þætti af sjöundu þáttaröð af Hvar er best að búa? sem varð aðgengilegur á streymiveitunni Sýn+ í gær. Hann verður seinna sýndur í opinni dagskrá Sýnar.

Í þáttaröðinni heimsækir Lóa alls konar fólk, m.a. tvær íslenskar konur sem féllu fyrir ítölsku eyjalífi, kjarnafjölskyldu úr Hafnarfirði sem hafnaði íslenska lánakerfinu og eiga nú skuldlaust hús í spænskri sveit, körfuboltafjölskyldu sem hefur verið í fjarbúð milli ótal landa og deilir nú tíma sínum milli Njarðvíkur og Póllands, ungri konu sem stofnaði veislutertufyrirtæki í Köben og konu á miðjum aldri sem fann ástina í örmum Spánverja á Djúpavogi sem leiddi þau til Andalúsíu þar sem við fylgjumst með brúðkaupi þeirra. Og loks kynnumst við hjónum á besta aldri sem höfðu kjark til að setjast að í alræmdri stórborg í Nígeríu umkringd vopnuðum öryggisvörðum.

Í myndbandinu sem hér fylgir má sjá brot úr þættinum.

Klippa: Frumkvöðlafjölskylda á flakki um heiminn

Framleiðandi og leikstjóri þáttanna er Lóa Pind Aldísardóttir, myndatökumenn eru Ívar Kristján Ívarsson og Hákon Pálsson og klippingu annaðist Magnús Ingvar Bjarnason hjá Obbosí. Framleitt af Lóu Production fyrir Sýn en hægt er að sjá alla þættina inni á streymisveitunni Sýn+.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.