Reiði ríkir í Minneapolis
Þingmenn bæði úr röðum repúblikana og demókrata krefjast þess að formleg rannsókn verði hafin á framferði fulltrúa innflytjenda- og tollaeftirlitsins ICE í Minneapolis. Fulltrúar þess skutu Alex Pretti, hjúkrunarfræðing á fertugsaldri, til bana á mótmælum gegn eftirlitinu á laugardag. Bandaríkjaforseti segir atvikið til skoðunar en hefur jafnframt haldið því fram að maðurinn hafi verið vopnaður, og hafi því mátt gæta sín. Ummælin hafa verið harðlega gagnrýnd, meðal annars af samtökunum byssueigenda, sem hafa ítrekað rétt fólks í Bandaríkjunum til að bera skotvopn.