
Íslenskt, já takk!
Akureyri mátti muna sinn fífil fegurri þegar ég var að alast þar upp. Ég er því ekki ein þeirra sem geta kallað fram bragðið af Valash-drykknum víðfræga með því einu að loka augunum og aldrei var ég svo heppin að eiga Duffys-buxur frá Gefjun. Hins vegar rámar mig í að hafa fengið Act-spariskó frá Iðunni tvenn jól í röð og á gelgjunni dró ég fram gamla mokkajakkann hennar mömmu, akureyrska framleiðslu frá gullaldarárum verksmiðjanna, sem var aftur kominn í tísku.